Hoppa yfir valmynd
20. janúar 2025 Heilbrigðisráðuneytið

Ráðherra viðstaddur opnun farsóttareiningar á Landspítala

Alma D. Möller heilbrigðisráðherra við opnun nýrrar farsóttareiningar á Landspítalanum - mynd

Síðastliðinn föstudag var Alma D. Möller heilbrigðisráðherra viðstödd opnun nýrrar farsóttareiningar á Landspítalanum. Farsóttareiningin varð til með flutningi göngudeildar smitsjúkdóma og bráðadagdeild lyflækninga undir sama þak í Fossvogi en deildirnar voru áður á sitthvorum staðnum á spítalanum. Með flutningnum og endurbótum sem gerðar hafa verið á húsnæðinu fær göngudeild smitsjúkdóma fyrsta flokks aðstöðu með sér loftræstingu og beinum aðgangi að utan. Þetta mun bæta þjónustu og öryggi þeirra sjúklinga sem þurfa á sérhæfðri meðferð að halda. Aukið rými fyrir bráðadagdeild lyflækninga mun efla bráðaþjónustu Landspítala og gera spítalanum kleift að bregðast við vaxandi eftirspurn og efla dagþjónustu sem annars þyrfti innlagnar við. Þetta á sér í lagi við þjónustu við fólk með langvinna sjúkdóma sem annars þyrfti að sækja þjónustu á bráðamóttöku. Sjúkra- og iðjuþjálfun sem fyrir var í húsnæðinu heldur áfram en nú í bættri aðstöðu.

„Í heimsfaraldrinum varð okkur fljótlega ljóst að þörf væri á sérhæfðri aðstöðu til að takast á við smitsjúkdóma. Það er því sérstakt fagnaðarefni að farsóttareiningin er loks orðin að veruleika. Farsóttareiningin er vitnisburður um það hvernig við getum lært af reynslunni og byggt upp betra umhverfi fyrir okkar þjónustu.“ Sagði Alma D. Möller heilbrigðisráðherra.

Farsóttareiningin er byggð upp með sveigjanleika að leiðarljósi. Á faraldurstímum verður hægt að breyta göngudeild smitsjúkdóma í fullbúna farsóttareiningu á stuttum tíma, þar sem aðgengi, loftræsting og öryggi eru í fyrirrúmi. Á öðrum tímum er aðstaðan nýtt sem göngudeild smitsjúkdóma og bráðadagdeild lyflækninga. Þannig er hægt að hámarka nýtingu húsnæðisins og aðlaga að breyttum aðstæðum gerist þess þörf. Það undirstrikar mikilvægi þess að búa heilbrigðiskerfið undir ófyrirséðar áskoranir framtíðarinnar.

  • Alma D. Möller heilbrigðisráðherra við opnun nýrrar farsóttareiningar á Landspítalanum - mynd
  • Alma D. Möller heilbrigðisráðherra við opnun nýrrar farsóttareiningar á Landspítalanum - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta