Kynbundinn launamunur minnkar samkvæmt nýrri rannsókn
Kynbundinn launamunur hefur dregist saman á árabilinu 2019 – 2023 hvort heldur litið er til atvinnutekna, leiðrétts eða óleiðrétts launamunar. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn Hagstofu Íslands á launamun karla og kvenna. Jafnréttismál munu flytjast til dómsmálaráðuneytisins þann 1. mars frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu en dómsmálaráðherra hefur þegar tekið við forræði málaflokksins.
Í niðurstöðum rannsóknarinnar kemur fram að á tímabilinu hafi munur á atvinnutekjum karla og kvenna minnkað um 3,6 prósentustig. Óleiðréttur launamunur á tímakaupi reglulegra heildarlauna hefur minnkað um 4,6 prósentustig og leiðréttur launamunur hefur minnkað um 0,8 prósentustig sbr. meðfylgjandi yfirlit.
Munur á atvinnutekjum |
Óleiðréttur launamunur - tímakaup reglulegra heildarlauna |
Leiðréttur launamunur |
|
2019 |
25,5% |
13,9% |
4,4% |
2023 |
21,9% |
9,3% |
3,6% |
Leiðréttur launamunur metur hvort karlar og konur með sambærilegan bakgrunn og í sambærilegum störfum fái sambærileg laun. Leiðréttur launamunur árið 2023 var mestur meðal starfsmanna á almennum vinnumarkaði 4,5% , meðal ríkisstarfsmanna var munurinn 3,0% og meðal starfsfólks sveitarfélaga var munurinn 0,6%.
Leiðréttur launamunur |
Allir |
Almennur vinnumarkaður |
Ríki |
Sveitarfélög |
2019 |
4,4% |
5,1% |
3,5% |
1,8% |
2023 |
3,6% |
4,5% |
3,0% |
0,6% |
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra er ánægð með þá jákvæðu þróun að launamunur milli kynjanna sé að jafnast. Aftur á móti telur hún að stjórnvöld þurfi alltaf að vera vakandi fyrir fjölbreyttum leiðum til að ná árangri:
„Nú felst helsta áskorunin í vanmati á hefðbundnum kvennastörfum miðað við hefðbundin karlastörf. Næstu skref eiga að vera að leiðrétta kerfisbundið vanmat á virði kvennastarfa“.
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins kemur fram að áfram verði unnið að því að leiðrétta kerfisbundið vanmat á virði kvennastarfa. Ýtt hefur verið úr vör viðamikilli vinnu stjórnvalda í samvinnu við fulltrúa sveitarfélaga og helstu hagaðila á vinnumarkaði um þróun virðismatskerfis starfa í þágu launajafnréttis.
Með þróun kerfisins standa vonir til að hægt verði að draga verulega úr launabili milli hefðbundinna kvenna- og karlastétta á allra næstu árum. Stefnt er að því að ljúka þróun virðismatskerfis síðla árs 2026.