Hoppa yfir valmynd
21. janúar 2025 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Vegna umfjöllunar um dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-2457/2024 og minnisblöð frá Umhverfisstofnun

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur sett af stað vinnu við gerð lagafrumvarps í ljósi dóms héraðsdóms Reykjavíkur um virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar og heimild Umhverfisstofnunar til breytinga á vatnshlotinu Þjórsá, dags. 15. janúar 2025. Var það niðurstaða dómsins að 18. gr. laga um stjórn vatnamála veitti Umhverfisstofnun ekki heimild til að leyfa breytingar á vatnshloti vegna beinna áhrifa frá framkvæmdum. Með fyrirhuguðum lagabreytingum er stefnt að því að eyða óvissu og koma í veg fyrir tafir á samfélagslega mikilvægum innviðaframkvæmdum.

Á undanförnum árum hafa ráðuneytinu borist ábendingar um ýmsar breytingar sem gera þyrfti á lögum um stjórn vatnamála, nr. 36/2011, m.a. vegna dóma Evrópudómstólsins sem fallið hafa eftir að vatnatilskipun Evrópusambandsins nr. 2000/60/EB tók gildi, en lög nr. 36/2011 innleiða þá tilskipun. Hlekkir á minnisblöð sem borist hafa ráðuneytinu frá Umhverfisstofnun eru hér fyrir neðan.

Í minnisblaði Umhverfisstofnunar til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins frá árinu 2019 er fjallað um mikilvægi þess að kveða skýrar á um leyfisveitingarferla og ákvarðanatöku á grundvelli 18. gr. laga um stjórn vatnamála. Í kjölfarið hófst vinna í ráðuneytinu við gerð lagafrumvarps í samvinnu við Umhverfisstofnun sem gert var ráð fyrir að yrði lagt fram á 152. löggjafarþingi.

Í lögfræðiáliti sem Umhverfisstofnun hafði aflað, dags. 12. desember 2022, og afhent umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu í apríl 2023, er lögð til frekari endurskoðun laga um stjórn vatnamála, þ.á m. 18. gr. laganna, m.a. í ljósi dóma Evrópudómstólsins. Minnisblaðið er ritað af prófessor í umhverfisrétti sem telur að ef lögskýringargögn séu lögð til grundvallar við skýringu 18. gr. virðist nýjar framkvæmdir eða umsvif sem leiði til hnignunar vatnshlots falla utan gildissviðs ákvæðisins. Hugsanlega hafi það verið vilji löggjafans en líklegra sé að um sé að ræða „alvarleg mistök í lagasetningu sem nauðsynlegt er að leiðrétta“. Að beiðni ráðuneytisins vegna fyrirhugaðrar vinnu við endurskoðun laga um stjórn vatnamála sendi Umhverfisstofnun ráðuneytinu einnig minnisblað þann 21. júní 2024 þar sem fram kom nánari tillaga um fyrirkomulag við endurskoðun laganna. Fjallað var um ábendingarnar í ráðuneytinu, auk þess sem gert var ráð fyrir breytingum á lögum um stjórn vatnamála á þingmálaskrá síðustu ríkisstjórnar á 154. og 155. löggjafarþingi. Frumvörp þess efnis voru ekki lögð fyrir ríkisstjórn eða Alþingi.

Að mati umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra er brýnt, vegna framangreinds, að ráðist verði tafarlaust í lagabreytingar til að ljóst sé að lög um stjórn vatnamála heimili Umhverfis- og orkustofnun að veita undanþágu vegna framkvæmda sem leiða til breytinga á vatnshloti, s.s. vegna virkjanaframkvæmda. Jafnframt verður sett af stað vinna við heildarendurskoðun laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála þar sem ýmsir aðrir þættir laganna verða teknir til endurskoðunar í ljósi ábendinga. Hefur undirbúningur vegna þeirrar endurskoðunar þegar hafist.

21.06. 2024 Minnisblað Umhverfisstofnunar. Endurskoðun laga um stjórn vatnamála

22.12.2022 Minnisblað dr. Aðalheiðar Jónsdóttur. Stjórn vatnamála

27.09. 2019 Minnisblað Umhverfisstofnunar. Framkvæmdir sem hafa áhrif á vatnshlot undir stjórn vatnamála

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta