ESB reglugerð um endurheimt náttúrunnar í samráðsgátt sambandsins
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið vekur athygli á að framkvæmdastjórn ESB óskar eftir ábendingum um framkvæmdareglugerð um fyrirmæli um beitingu reglugerðar (EU) 2024/1991 um endurheimt náttúrunnar og hlutaðeigandi viðauka.
Markmið reglugerðarinnar, sem breytir m.a. reglugerð (EU) 2022/869, er að setja fram reglur á vettvangi Evrópusambandsins um endurheimt vistkerfa og til að tryggja endurheimt líffræðilegrar fjölbreytni aðildarríkjanna til að ná fram settum markmiðum Evrópusambandsins um loftslag, líffræðilegan fjölbreytileika og fæðuöryggi. Þá er henni ætlað að stuðla að markmiðum sambandsins í tengslum við mótvægisaðgerðir vegna loftslagsbreytinga og aðlögun að þeim, sem og til að standa við alþjóðlegar skuldbindingar sem sambandið hefur gengist undir.
Til að markmið Evrópusambandsins náist, verða aðildarríkin að endurheimta að minnsta kosti 30% þeirra búsvæða sem falla undir lögin úr slæmu ástandi í gott ástand fyrir árið 2030, 60% fyrir árið 2040 og 90% fyrir árið 2050.
Reglugerðinni er ætlað að tryggja endurheimt líffræðilegs fjölbreytileika og vistkerfa á bæði landi og í sjó. Er í reglugerðinni settur fram rammi og eiga aðildarríkin að gera ráðstafanir innan hans til að ná markmiði sambandsins um að endurheimta 20% landsvæða og 20% hafsvæða fyrir árið 2030. Auk þess sem þau eiga að gera ráðstafanir til að endurheimta öll vistkerfi sem þess þurfa fyrir árið 2050.
Frestur til að koma ábendingum á framfæri er til 7. febrúar 2025.