Heilbrigðisráðherra fundar með heilbrigðisráðherra Póllands
Alma D. Möller heilbrigðisráðherra fundaði í liðinni viku með Izabela Leszczyna heilbrigðisráðherra Póllands í Varsjá. Fundurinn var haldinn í tengslum við ráðstefnuna „Together for the Health of Europe – Strategic Directions and Actions of the Public Health Sector,“ sem markaði upphaf formennskutímabils Póllands í ráðherraráði Evrópusambandsins. Ísland tekur þátt í samstarfi ESB á sviði heilbrigðismála í gegnum EES-samninginn. Á fundinum lagði Alma D. Möller áherslu á vilja Íslands til að efla samstarf við Evrópusambandið á sviði heilbrigðismála, með sérstakri áherslu á heilbrigðisviðbúnað. Samstarfið veitir Íslandi tækifæri til að tryggja betra aðgengi og afhendingaröryggi lyfja og annars búnaðar í neyðarástandi, styrkja heilbrigðisviðbúnað og auka getu til að takast á við óvænt áföll sem ógnað geta almannaheill.
„Það er lykilatriði að tryggja samhæfingu og skilvirkni í viðbrögðum við heilbrigðisvá. Ísland er reiðubúið að leggja sitt af mörkum í því samstarfi,“ sagði Alma D. Möller á fundinum.
Unnið hefur verið að því á þriðja ár að efla þátttöku Íslands í heilbrigðissamstarfi ESB sem liggur utan EES-samningsins. Þrjár nýjar gerðir sem styrkja neyðarviðbúnað og viðbrögð við lýðheilsuvá þvert á landamæri hafa nú þegar verið teknar upp í samninginn og bíða innleiðingar í íslenska löggjöf. Síðastliðið haust mælti framkvæmdastjórnin með því við ráðherraráð ESB að hefja formlegar viðræður við EES/EFTA-ríkin þrjú; Ísland, Liechtenstein og Noreg, um aukið samstarf í heilbrigðismálum, en þær geta ekki hafist fyrr en ráðherraráðið hefur samþykkt samstarfsumboðið. Vonir standa til að af því verði meðan Pólverjar gegna formennsku í ráðinu.
Izabela Leszczyna lýsti yfir velvilja gagnvart sjónarmiðum Íslands og benti á að unnið verði að því að hraða viðræðum.
Heilbrigðisráðherra, Alma D. Möller, leggur áherslu á mikilvægi þess að Ísland taki þátt í samræmdum viðbrögðum og samstarfi við aðrar Evrópuþjóðir enda skipti það sköpum til að tryggja öryggi og viðbúnað við heilbrigðisvá.