Utanríkisráðherra fundaði með utanríkisráðherra Króatíu
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra fundaði í dag með Gordan Grlić-Radman utanríkisráðherra Króatíu í Zagreb. Þorgerður Katrín er sem kunnugt er stödd á eigin vegum í Króatíu til að styðja íslenska karlalandsliðið í handbolta á heimsmeistaramótinu sem nú stendur yfir.
Á fundinum lagði utanríkisráðherra áherslu á vilja ríkisstjórnarinnar til að efla samstarf Íslands við Evrópusambandið enn frekar, meðal annars á sviðum utanríkismála, heilbrigðismála og öryggis- og varnarmála.
„Náið vinasamband þjóðanna nær aftur til ársins 1991 þegar Ísland varð fyrst ríkja til að viðurkenna sjálfstæði Króatíu og við eigum nú þegar í góðu samstarfi á grundvelli EES-samningsins og í gegnum Uppbyggingarsjóð EES þar sem mörg frekari tækifæri blasa við. Króatar eru sérlega áhugasamir um jarðhitaþekkingu okkar, reynslu okkar af jarðhræringum og jarðskjálftum, sem og sjálfbærri ferðaþjónustu og vinnumarkaðsmálum,“ segir Þorgerður Katrín. „Fundur okkar undirstrikar áherslu ríkisstjórnarinnar á að efla enn frekar samstarf okkar við aðildarríki Evrópusambandsins, ekki síst í ljósi þeirra víðsjárverðu tíma sem uppi eru í alþjóðamálunum nú um stundir.“
Þá voru málefni Úkraínu sömuleiðis í brennidepli á fundi ráðherranna. Króatía hefur stutt varnarbaráttu Úkraínu frá því að innrásarstríð Rússlands hófst fyrir hartnær þremur árum og festi nýverið í sessi langtímastuðning til handa Úkraínu líkt og íslensk stjórnvöld gerðu í maí í samræmi við þingsályktun Alþingis um stefnu um stuðning Íslands við Úkraínu til ársins 2028.