Ráðherra opnar nýjan og aðgengilegri vef fyrir veðurspár
Nýr vefur Veðurstofu Íslands fór í loftið í dag, þegar Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, opnaði á umferð um vefinn. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur styrkt gerð vefsins, sem er fyrsta skrefið í heildarendurnýjun á vef Veðurstofunnar.
Vefurinn, sem er fyrir veðurspár er á slóðinni https://gottvedur.is/. Þegar endurnýjun á núverandi vef lýkur færast nýju veðursíðurnar á vefslóðina www.vedur.is.
Í þessum fyrsta áfanga á endurnýjun vefsins er lögð áhersla á upplýsingar sem flestir sækja daglega, en það eru veðurspár fyrir tiltekin stað. Fyrir utan bætta framsetningu á staðarspám hefur stöðum sem hægt er að fletta upp til að fá veðurspá fyrir verið fjölgað verulega og mun fjölga enn frekar.
Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Það er mér sérstök ánægja að fá að opna nýjan vef Veðurstofu Íslands. Þessi fyrsti áfangi að endurbættri heimasíðu er stórt skref fram á við í aðgengi að grundvallargögnum og upplýsingum um veður og náttúröfl. Vefurinn mun koma að gagni í daglegu lífi fólks og nýtast sem tæki til að safna og miðla upplýsingum um veðurfar. Það er viðeigandi að opna vefinn í íslensku vetrarveðri.“
Hildigunnur H.H. Thorsteinsson forstjóri Veðurstofu Íslands: „Núverandi vefur hefur þjónað okkur dyggilega í næstum 20 ár og því eru þetta mikil tímamót í dag. Það að vefurinn hafi dugað nánast óbreyttur þetta lengi er til marks um gæði hans á sínum tíma, en engu að síður vorum við komin í tækniskuld með vefinn og upplýsingatækniumhverfið sem tengist honum. Það sem birtist í dag má segja að sé toppurinn á ísjakanum í algjörri endurnýjun á vefumhverfinu. Mestu breytingarnar sem notendur taka sennilega eftir er það er miklu betra að nota nýja vefinn í farsíma.“
Nýr vefur Veðurstofunnar verður notendavænni en sá gamli, og áhersla er lögð á að framsetning upplýsinga sé skýr og að vefurinn sé betur í stakk búinn til að mæta álagi. Þá er hluti af endurnýjun á upplýsingatækniumhverfi tengt vefnum að bæta aðgengi að gögnum Veðurstofunnar. Samhliða því að nýjar vefsíður verða aðgengilegar, er unnið að uppsetningu á vefþjónustum og ýmsum gagnagáttum til að bæta aðgengi og notagildi þeirra gagna sem Veðurstofan safnar.