Aðalsteinn Leifsson ráðinn aðstoðarmaður utanríkisráðherra
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra hefur ráðið Aðalstein Leifsson sem aðstoðarmann sinn. Aðalsteinn er með mikla reynslu af alþjóðamálum og hefur meðal annars starfað áður fyrir utanríkisráðuneytið, unnið hjá utanríkisþjónustu ESB, verið sérfræðingur hjá EFTA í Brussel og auk þess að vera í yfirstjórn samtakanna í höfuðstöðvum EFTA í Genf. Aðalsteinn var ríkissáttasemjari og hefur auk þess verið lektor í Háskólanum í Reykjavík þar sem hann kenndi meðal annars áfanga um Evrópusambandið, Alþjóðviðskiptastofnunina (WTO) og fríverslunarsamninga og þjálfaði MBA-nemendur og meistaranema í lögfræði í samningatækni.
Aðalsteinn er stjórnmálafræðingur frá H.Í., er með masterspróf í stjórnmálum og hagfræði ESB frá London School of Economics and Political Science (LSE) og MBA-próf frá Heriot-Watt University.
Aðalsteinn tekur til starfa 1. mars næstkomandi.