Hoppa yfir valmynd
4. febrúar 2025 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Frumvörp sem snerta fjölda fólks

Ellefu frumvörp á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar koma frá Ingu Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra. Frumvörpin spanna vítt svið og snerta fjölda fólks. Má þar nefna:

  • Fatlað fólk
  • Örorkulífeyrisþega
  • Ellilífeyrisþega
  • Fólk á leigumarkaði
  • Fólk sem eignast fjölbura
  • Fólk sem tekur hlutdeildarlán til fyrstu íbúðarkaupa
  • Börn sem missa foreldri
  • Foreldra sem geta ekki annast börn sín í fæðingarorlofi vegna veikinda sem rekja má til meðgöngunnar

„Ég er afar stolt af okkar metnaðarfullu þingmálaskrá. Frumvörp okkar nú á vorþingi munu skipta miklu fyrir tekjulægstu hópa samfélagsins,“ segir Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra.

Fjölbreytt frumvörp

Frumvörpin sjálf og lýsingu á þeim má nálgast hér:

Frumvarp til laga um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

Frumvarpið felur í sér að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði lögfestur í heild sinni. Markmið samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er að efla, verja og tryggja að allt fatlað fólk njóti til fulls og til jafns við aðra allra mannréttinda og grundvallarfrelsis. Markmiðið er einnig að auka virðingu fyrir fötluðu fólki.

Frumvarp til laga um breytingu á húsaleigulögum (almenn skráningarskylda leigusamninga í leiguskrá)

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á húsaleigulögum þannig að skráningarskylda leigusamninga í leiguskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar verði almenn í stað þess að hún taki eingöngu til þeirra sem hafa atvinnu af útleigu íbúðarhúsnæðis. Með því fást áreiðanlegri og heildstæðari upplýsingar um leigumarkaðinn og einstaka hluta hans, lengd leigusamninga, þróun húsaleigu, búsetu í óviðunandi húsnæði og fleira sem nauðsynlegt er til að undirbyggja frekari stefnumótun og ákvarðanatöku stjórnvalda í málaflokknum sem og eftirlit með búsetu í óviðunandi húsnæði og svartri leigustarfsemi. Markmiðið er þannig að bæta stöðu leigjenda.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (Hlutdeildarlánasjóður)

Með frumvarpinu er lagt til að stofnaður verði sérstakur Hlutdeildarlánasjóður sem hafi það hlutverk að fjármagna hlutdeildarlán og er markmiðið að liðka fyrir því að fólk geti tekið lánin. Hlutdeildarlán eru veitt til fyrstu kaupenda eða þeirra sem ekki hafa átt íbúð síðustu fimm ár. Þau eru ólík öðrum lánum þar sem þau eru vaxtalaus og ekki er greitt af þeim mánaðarlega heldur lánið greitt til baka þegar íbúðin er seld eða eftir að hámarki 25 ár.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar (aldursviðbót og launavísitala)

Með frumvarpinu er lögð til sú breyting að aldursviðbót falli ekki niður þegar örorkulífeyrisþegi nær ellilífeyrisaldri. Aldursviðbótin fylgi þeim sem eiga engin eða takmörkuð atvinnutengd réttindi til ellilífeyris. Einnig er með frumvarpinu lögð til sú breyting að örorku- og ellilífeyrir hækki árlega til samræmis við hækkun launavísitölu en þó aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Jafnframt verða lagðar til nokkrar breytingar í tengslum við innleiðinguna á nýja örorkulífeyriskerfinu.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof (fjölburaforeldrar og veikindi á meðgöngu)

Í frumvarpinu er lagt til að lengja fæðingarorlof fyrir foreldra með fjölbura, sem og í þeim tilfellum þar sem upp hafa komið alvarleg veikindi á meðgöngu sem haldið hafa áfram eftir fæðingu og gert foreldri ófært að annast barn sitt í fæðingarorlofi.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um sorgarleyfi (aukinn réttur foreldra)

Frumvarpinu er ætlað að auka réttindi foreldra enn frekar, meðal annars með því að tryggja þeim foreldrum sem missa maka rétt til sorgarleyfis. Sorgarleyfi er lagalegur réttur foreldra til að fá leyfi frá störfum í kjölfar barnsmissis í sex mánuði og greiðslur til að koma til móts við tekjutap á meðan. Í frumvarpinu er lagt til að sorgarleyfi nái einnig til foreldra sem verða fyrir því áfalli að hjúskapar- eða sambúðarmaki andast. Markmiðið er að styrkja enn frekar stöðu barna og barnafjölskyldna sem verða fyrir áföllum.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um almennar íbúðir (fyrirkomulag almennra íbúða)

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á fyrirkomulagi almennra íbúða til að húsnæðisstuðningskerfið stuðli enn frekar að auknu framboði íbúða með viðráðanlegum húsnæðiskostnaði, meðal annars með lækkun fjármögnunarkostnaðar stofnframlagshafa. Jafnframt verði framkvæmd úthlutunar stofnframlaga endurskoðuð til að einfalda ferla og auka skilvirkni.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof (EES-reglur)

Frumvarpinu er ætlað að bregðast við athugasemdum frá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) í tengslum við innleiðingu á reglugerð um samræmingu almannatryggingakerfa. Frumvarpið felur í sér jákvæðar breytingar fyrir þann hóp fólks sem verið hefur á vinnumarkaði í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins en flytur til Íslands á meðgöngu barns og byrjar að vinna hér á landi.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um skipulag haf- og strandsvæða (svæðisráð o.fl.).

Með frumvarpinu eru lagðar til tilteknar lágmarksbreytingar á lögum um skipulag haf- og strandsvæða til að sníða af þeim tæknilega agnúa sem komið hafa í ljós við framkvæmd þeirra áður en frekari vinna við gerð strandsvæðisskipulags hefst.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjöleignarhús (dýrahald)

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga um fjöleignarhús sem varða dýrahald til að auðvelda hunda- og kattahald í fjölbýli.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu (heiti stofnunar)

Með frumvarpinu er lagt til að breyta heiti Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu. Nýtt heiti verði Sjónstöðin. Í gamla nafninu eru hvorki fleiri né færri en 13 orð og 97 bókstafir en eftir breytinguna verður orðið einungis eitt og bókstafirnir tíu.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta