Óformlegur fundur innanríkismálaráðherra í Varsjá
Óformlegur fundur innanríkismálaráðherra ESB fór fram í Varsjá 30. janúar 2025. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, dómsmálaráðherra, sótti fundinn fyrir Íslands hönd sem Schengen samstarfsríki (e. Schengen Associated Country). Á dagskrá voru málefni flótta- og farandfólks, almannavarnir og innra öryggi Evrópu.
Málefni flótta- og farandfólks
Í þessari umræðu var einkum vikið að nýjum lausnum við stjórnun komu fólks í óreglulegri för. Almennt voru ríkin sammála um mikilvægi þess að huga að nýstárlegum lausnum við endursendingar og í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd, t.d. hugmyndir um örugg þriðju ríki, örugg málsmeðferðarsvæði utan ESB, endursendingarmiðstöðvar og nýja heildræna nálgun í samskiptum við þriðju ríki. Þá kynnti Magnus Brunner, nýr framkvæmdastjóri innri öryggismála, öryggis landamæra og málefna flótta- og farandsfólks, væntanlegar tillögur framkvæmdastjórnar ESB að nýju regluverki á sviði endursendinga.
Í ræðu sinni vísaði Brunner til tilkynningar Íslands til framkvæmdastjórnar ESB frá desember sl. þar sem þess var óskað að tekið yrði til skoðunar að fella tímabundið úr gildi undanþágu Venesúela frá áritunarskyldu til að ferðast inn á Schengen-svæðið. Þótt hin ströngu lagaskilyrði fyrir að beita þessu úrræði hafi ekki verið uppfyllt í þessu tilviki að mati framkvæmdastjórnarinnar, taldi hann tilkynninguna gott dæmi um nauðsyn þess að endurskoða regluverk um áritanir. Reglurnar um afnám áritunarfrelsis væru mikilvægt tól sem ESB þyrfti að geta beitt í miklu ríkari mæli og með skjótvirkari hætti til að koma í veg fyrir misnotkun.
Dómsmálaráðherra tók undir mikilvægi þess að endurskoða þyrfti regluverkið í kringum endursendingar. Þá vonaðist hún til að tilkynning Íslands vegna Venesúela myndi, þrátt fyrir niðurstöðu framkvæmdarstjórnar, leiða til breytinga á málsmeðferðarreglum um afnám áritunarfrelsis.
Almannavarnir
Mikil umræða fór fram um þær ógnir og áskoranir sem ríkin standa frammi fyrir. Talið var nauðsynlegt að styrkja almannavarnir, öryggi og varnarmál sambandsins. Þá þyrfti að styrkja og samhæfa betur samstarf á milli stjórnvalda og stofnana, bæði innanlands og á vettvangi ESB, m.a. á sviði almannavarna en einnig vegna netöryggismála, hryðjuverka og skipulagðra glæpasamtaka. Loks ræddu ríkin um mikilvægi þess að samtvinna hernaðarlega og borgaralega aðkomu og endurmóta samstarfsverkefni hins opinbera við einkaaðila.
Innra öryggi Evrópu
Í þessari umræðu var m.a. rætt um væntanlega stefnu í innri öryggismálum ESB. Ríkin vísuðu til þess að þau og sambandið stæðu frammi fyrir flóknu og óstöðugu öryggislandslagi sem krefðist nýstárlegra og markvissra lausna. Ríkin væru að bregðast við síendurteknum ógnum af hryðjuverkum, aukningu netglæpa og tölvuárása, auk fjölþættrar skipulagðrar glæpastarfsemi eins og mansals, fíkniefna- og vopnasmygls. Þá hefðu landfræðipólitísk átök eins og stríðið í Úkraínu og átökin í Mið-Austurlöndum skapað nýjar áskoranir, m.a. vegna komu flótta- og farandfólks en einnig vegna misnotkunar á samfélagsmiðlum og dulkóðaðra samskiptatækja til að ýta undir öfgahyggju og falsfréttir.
Nánar er fjallað um fundinn og stöðu þessara mála á svonefndri Brussel-vakt á vefsíðu sendiráðs Íslands í Brussel.