Hoppa yfir valmynd
5. febrúar 2025 Mennta- og barnamálaráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Lífshlaupinu ýtt úr vör

Guðrún Día Hjaltested starfsmannasjúkraþjálfari Landspítalans, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra, Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ, Gunnar Ágúst Beinteinsson, framkvæmdastjóri mannauðs á Landspítala, Eygló Fanndal Sturludóttir afreksíþróttakona og Guðrún Aspelund settur landlæknir  - mynd

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra, og Alma D. Möller heilbrigðisráðherra fluttu ávarp við setningu Lífshlaupsins í Barnaspítala Hringsins í dag. Lífshlaupið er heilsu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem ætlað er að stuðla að aukinni daglegri hreyfingu, þátttakendum til heilsubótar.

Auk ráðherra tóku Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ, Guðrún Aspelund settur landlæknir og Eygló Fanndal Sturludóttir, afreksíþróttakona í lyftingum og læknanemi til orða. Þá kynnti Guðrún Día Hjaltested starfsmannasjúkraþjálfari heilsueflandi efni heilsuteymis LSH.

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra, og Alma D. Möller heilbrigðisráðherra

„Ég hvet fólk á öllum aldri til að taka þátt í Lífshlaupinu af lífi og sál samkvæmt getu. Fyrir þá sem lítið hreyfa sig getur Lífshlaupið verið hvatningin sem þarf til að taka upp breyttan lífsstíl og gera reglubundna hreyfingu að daglegri venju. Heilsufarslegur ávinningur er ótvíræður, jafnt fyrir líkamlega og andlega heilsu,“ segir Alma D. Möller heilbrigðisráðherra.

„Lífshlaupið, heilsu- og hvatningarverkefni Íþróttahreyfingarinnar, fer nú fram í 18 skiptið. Frá upphafi hefur þátttaka almennings í gegnum sína vinnustaði og skóla verið framúrskarandi. Í mínum huga þýðir það að vitund og vitneskja almennings á gildi hreyfingar og líkamsræktar er svo sannarlega til staðar,“ segir Ásthildur Lóa Þórsdóttir, ráðherra íþróttamála. „Þrátt fyrir það fjölgar lífsstílstengdum vandamálum og sjúkdómum og þarf sífellt að viðhalda og efla fræðslu um íþróttir og heilsueflingu.“

Í ráðleggingum embættis landlæknis um hreyfingu er börnum og unglingum ráðlagt að hreyfa sig í minnst 60 mínútur á dag og fullorðnum 150 mínútur á viku. Í Lífshlaupinu þarf að skrá 30 mínútur á dag í keppni vinnustaða og hreystihópa 67+ til að dagurinn telji. Lífshlaupið höfðar til allra aldurshópa og nær til frítíma, vinnu, skóla og við val á ferðamáta.

Lífshlaupið skiptist í fjórar keppnir::

  • Grunnskólakeppni fyrir 15 ára og yngri frá 5.-18. febrúar
  • Framhaldsskólakeppni fyrir 16 ára og eldri frá 5.-18. febrúar
  • Vinnustaðakeppni frá 5.-25. febrúar
  • Hreystihópar 67+ frá 5.-25. febrúar

Vinnustaðir, skólar og einstaklingar eru hvattir til að taka þátt og nota þannig tækifærið til að efla líkama og sál með því að hreyfa sig daglega.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta