Hoppa yfir valmynd
5. febrúar 2025 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Þingsályktun um framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár í Samráðsgátt

Kerlingafjöll. - myndHugi Ólafsson

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur birt í Samráðsgátt stjórnvalda drög að þingsályktun um framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár.

Samkvæmt lögum um náttúruvernd skal ráðherra leggja fram á Alþingi, eigi sjaldnar en á fimm ára fresti, tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár. Framkvæmdaáætlunin er skrá yfir þær náttúruminjar sem verða settar í forgang um friðlýsingu eða friðun á næstu fimm árum. Valið byggir á tillögu Náttúrufræðistofnunar frá 2018 en þar voru lögð til svæði sem teljast mikilvæg með tilliti til líffræðilegrar fjölbreytni.

Á tímabilinu október 2023 til febrúar 2024 kynnti Umhverfisstofnun (nú Náttúruverndarstofnun) viðeigandi sveitarfélögum, og landeigendum 15 svæða hvað fælist í að svæðin yrðu sett á framkvæmdaáætlun. Stofnunin upplýsti einnig að fram undan væri lögbundið kynningarferli. Í framhaldi af þessu samráði við sveitarfélög og landeigendur var ákveðið að kynna formlega tíu svæði í samræmi við 36. gr. laga nr. 60/2013, um náttúruvernd. Að loknu lögbundnu kynningarferli mat stofnunin að sex svæði skyldu lögð til á framkvæmdaáætlunina og skilaði tillögu þess að lútandi  til ráðherra.

Svæðin sem stofnunin leggur til að fari á framkvæmdaáætlun eru: Goðdalur, Hengladalir, Húsey og Eyjasel, Lauffellsmýrar, Oddauppsprettur og Lambeyraruppsprettur og Reykjanes-Þorlákshver. Þessi svæði hafa öll hátt verndargildi. Þar er til dæmis að finna fágæta jarðhitalæki, víðáttumiklar mýrar sem gegna hlutverki í baráttunni við loftslagsbreytingar, staðbundnar fisktegundir, og einnig leita fuglategundir á válista þar athvarfs. 

Ráðgjafarnefnd náttúruminjaskrár, sem lögum samkvæmt skal vera ráðherra til ráðgjafar um framkvæmdaáætlunina, studdi í umsögn sinni til ráðherra að ofangreind sex svæði verði á framkvæmdaáætlun um náttúruminjaskrár.

Athygli er vakin á því að umsagnarfrestur vegna þingsályktunarinnar í samráðsgátt stjórnvalda er til 20. febrúar næstkomandi.

Tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár 2025-2029

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta