Hoppa yfir valmynd
6. febrúar 2025 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Öllum nýjum erindum til réttindagæslumanna fyrir fatlað fólk verið komið í ferli

Frá því að starfandi réttindagæslumenn fyrir fatlað fólk tóku til starfa í kringum áramót hafa þeir móttekið 68 erindi sem öll hafa verið sett í viðeigandi ferli. Áhersla er lögð á að svara samdægurs eða við fyrsta tækifæri. Öllum þeim málum sem fyrrum réttindagæslumenn hafa sinnt samkvæmt málaskrá hefur auk þess verið úthlutað til nýrra réttindagæslumanna.

Sumum erindum til réttindagæslu fyrir fatlað fólk lýkur með leiðbeiningaskyldu eða fræðslu en þau mál þar sem þjónustu er ábótavant eða grunur leikur á að verið sé að brjóta á réttindum fatlaðs fólks fá stöðu réttindagæslumáls. Slík mál eru í dag 46 talsins og eru öll í vinnslu hjá réttindagæslumönnum.

Réttindagæslumenn fylgjast einnig með málum eftir að þeim hefur verið vísað annað og eru 103 mál nú í slíkri eftirfylgd.

Hver sinnir réttindagæslu fyrir fatlað fólk?

Réttindagæsla fyrir fatlað fólk er starfrækt á ábyrgð félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins og verður það til 1. maí nk. þegar hún flyst til Mannréttindastofnunar Íslands. Sérfræðingar sem hafa menntun, þekkingu og reynslu af málefnum og réttindum fatlaðs fólks starfa sem réttindagæslumenn á grundvelli laga um réttindagæslu fyrir fatlað fólk þangað til þjónustan flyst til Mannréttindastofnunar. 

Um er að ræða einn þroskaþjálfa, einn félagssálfræðing og þrjá félagsráðgjafa, þar af tvo réttarfélagsráðgjafa. Þau hafa áralanga reynslu af því að gæta réttinda fatlaðs fólks í gegnum velferðarþjónustu, barnavernd, félagasamtök, réttarvörslukerfið og skólakerfið, svo dæmi séu nefnd, auk þess að hafa unnið með fötluðu fólki í margvíslegum öðrum aðstæðum, s.s. við stuðningsþjónustu, í dagþjálfun, á geðdeild og í búsetuúrræðum.

Þau hafa líka sem dæmi mikla reynslu af greiningu mála, öflun viðeigandi gagna og vinnslu þeirra, sem og reynslu í meðferð mála sem krefjast þess að skilja og túlka vilja aðila sem nota óhefðbundnar tjáskiptaleiðir.

Hvaða lög samþykkti Alþingi og frestaði síðan?

Upphaflega átti Mannréttindastofnun Íslands að taka til starfa nú um áramótin og réttindagæsla fyrir fatlað fólk að færast samhliða þangað. Í lögunum sem Alþingi samþykkti í júní sl. voru öll störf réttindagæslumanna og annars starfsfólks réttindagæslu fyrir fatlað fólk lögð niður frá og með 1. janúar 2025. Í nefndarálitinu kom fram að stefnt yrði að því að auglýsa störf hjá nýrri stofnun fyrir þann tíma.

Á grundvelli laganna sagði ráðuneytið þann 31. júlí og 30. september sl. upp öllum réttindagæslumönnum og öðru starfsfólki réttindagæslu fyrir fatlað fólk, þar sem ráðningarsamningar höfðu þriggja og fimm mánaða uppsagnarfrest og kláraði starfsfólkið uppsagnarfrest þann 31. desember 2024. Leigu húsnæðis var enn fremur sagt upp frá áramótum.

Þann 18. nóvember sl. frestaði Alþingi síðan gildistöku laga um Mannréttindastofnun um fjóra mánuði eða til 1. maí 2025. Samhliða áréttaði Alþingi niðurlagningu starfanna hjá réttindagæslunni frá og með áramótum. 

Vegna frestunar Alþingis á gildistöku laganna myndaðist fjögurra mánaða gat í réttindagæslu fyrir fatlað fólk – frá 1. janúar til 1. maí 2025 – og fól Alþingi félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu að tryggja að ekki yrði rof á slíkri þjónustu í þann tíma. Ráðuneytið skyldi tryggja samfellda þjónustu á tímabilinu, m.a. með ráðningu starfsfólks tímabundið til að sinna réttindagæslu fyrir fatlað fólk.

Öllu starfsfólki réttindagæslunnar hafði verið sagt upp til að framfylgja lögunum sem Alþingi samþykkti í júní, líkt og fram kemur að ofan. Til að brúa bilið vegna frestunar Alþingis á gildistöku laganna réð félags- og vinnumarkaðsráðuneytið tímabundið til starfa sérfræðinga hjá Samskiptastöðinni og eru það þau fimm sem greinir frá hér að ofan. Þau starfa nú sem réttindagæslumenn á grundvelli laga um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, nr. 88/2011.

Vel hefur sem fyrr segir gengið að sinna réttindagæslunni, auk þess sem þegar hafa verið gerðar ráðstafanir í samráði við stjórn Mannréttindastofnunar Íslands til að tryggja samfellda þjónustu réttindagæslumanna fyrir fatlað fólk þegar starfsemin færist til Mannréttindastofnunar þann 1. maí 2025.

Hvernig er hægt að hafa samband við réttindagæsluna?

Símanúmerið er það sama og áður: 554 8100. Fram til 1. maí nk. er opnunartími símaþjónustu réttindagæslumanna fyrir fatlað fólk einnig óbreyttur a frá 9:00-16:00 alla virka daga. Utan opnunartíma símaþjónustu er hægt að lesa inn skilaboð í talhólf eða senda erindi á [email protected].  

Á vefnum er sömuleiðis hægt að tilkynna um brot á réttindum fatlaðs einstaklings.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta