Um kjarasamning kennara og aðkomu ráðherra
Að gefnu tilefni vekur mennta- og barnamálaráðuneytið athygli á því að ráðherra og ráðuneytið eru ekki aðilar að kjarasamningum kennara. Hvorki Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra, né starfsmaður á hennar vegum hefur boðið eða gefið vilyrði um launahækkun til kennara.
Kjaradeila kennara hefur verið rædd í ríkisstjórn Íslands og leitað leiða til að liðka fyrir sátt í deilunni, svo sem með því að flýta virðismati starfa og/eða almennum aðgerðum í menntamálum.
Mennta- og barnamálaráðherra hitti forystu Kennarasambands Íslands á fundi fimmtudaginn 30. janúar ásamt forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þar var meðal annars rætt um möguleika til að flýta virðismati starfa og aðgerðum í menntamálum.