Áframhaldandi fjárstuðningur við úrbætur í aðgengismálum fyrir fatlað fólk
Stjórnvöld og ÖBÍ hafa um nokkurra ára skeið átt árangursríkt samstarf um úrbætur í aðgengismálum fyrir fatlað fólk um land allt. Framhald verður á samstarfinu en í dag var samkomulag undirritað um fjárstuðning við átaksverkefnið til næstu tveggja ára, eða út árið 2026. Eyjólfur Ármannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Alma Ýr Ingólfsdóttir, formaður ÖBÍ réttindasamtaka, undirrituðu samkomulagið. Allt að 464 milljónir kr. verða veittar í styrki gegn helmings mótframlagi sveitarfélaga.
Átaksverkefninu var ýtt úr vör vorið 2021 og hefur nú verið framlengt til ársloka 2026. Verkefnið felst í því að bæta aðgengi fyrir fatlað fólk, m.a. í opinberum byggingum, almenningssamgöngum, útivistarsvæðum og almenningsgörðum svo aðeins nokkur dæmi séu nefnd.
„Við verðum að tryggja að fatlað fólk um allt land hafi aðgengi að samfélaginu til jafns við aðra. Samstarfið við ÖBÍ um þetta verkefni hefur verið farsælt og árangurinn með ágætum. Það eru víða brýnar áskoranir og mikilvægt að taka höndum saman um úrbætur í samvinnu við sveitarfélögin í landinu en öll úrbótaverkefni eru fjármögnuð í samvinnu við þau,“ Eyjólfur Ármannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
„Við erum afar vongóð um að þetta verkefni muni halda áfram að skila bættu aðgengi að manngerðu umhverfi í sveitarfélögum landsins. Þetta er mikilvæg vitundarvakning og stuðlar að auknum skilningi á mikilvægi góðs aðgengis. Við bindum vonir við að verkefnið reynist hvatning til sveitarfélaga til að gera enn betur í aðgengismálum,“ segir Alma Ýr Ingólfsdóttir, formaður ÖBÍ réttindasamtaka.
Nánar um styrki til úrbóta í aðgengismálum
Fasteignasjóður Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga mun veita allt að 464 milljónum kr. á árunum 2025-2026 til að vinna að úrbótum í aðgengismálum út árið 2026. Jöfnunarsjóður mun veita fjárstyrki til fjölbreyttra úrbótaverkefna en framlag sjóðsins verður 50% á móti framlagi sveitarfélaga. Þá fær ÖBÍ sérstakan fjárstyrk til að standa undir kostnaði vegna verkefnisstjóra út samningstímabilið. Hlutverk hans er að vinna að úrbótaverkefnum með sveitarfélögum, forgangsraða þeim og meta framgang þeirra.
Alls hefur rúmlega 630 m.kr. verið ráðstafað úr sjóðnum til úrbótaverkefna vegna aðgengismála frá því að átakinu var fyrst ýtt úr vör árið 2021.
Dæmi um verkefni sem styrkt eru:
- Úrbætur á aðgengi fatlaðs fólks að byggingum í eigu sveitarfélaga eða byggingum í eigu annarra aðila en sveitarfélaga, þar sem um samvinnuverkefni sveitarfélaga og einkaaðila er að ræða.
- Úrbætur til að biðstöðvar almenningssamgangna, almenningsgarðar og útivistarsvæði verði aðgengileg fötluðu fólki.
- Úrbætur sem lúta að aðlögun á vinnustöðum fatlaðs fólks, sem starfræktir eru eftir lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.