Vitundarvakningin Meinlaust komin í loftið
Norrænni vitundarvakningu undir yfirskriftinni Meinlaust hefur verið hleypt af stokkunum. Markmið vitundarvakningarinnar er að auka vitund almennings gagnvart öráreiti í garð jaðarhópa eins og kvenna, fólks með fötlun og fólks af erlendum uppruna. Hún byggir á íslenskri vitundarvakningu frá árinu 2022 sem ákveðið var að láta þýða og aðlaga fyrir öll Norðurlöndin.
- Sjá efni á íslensku: Veggspjöld
- Sjá efni á íslensku: Instagram
Öráreiti er hugtak yfir hversdagslegar athafnir, athugasemdir eða umhverfisþætti sem eru til þess fallin að niðurlægja fólk í jaðarsettum hópum. Hvert áreiti fyrir sig er ef til vill ekki stórvægilegt en þegar fólk í jaðarsettum hópum finnur fyrir slíku reglulega, getur áreitið valdið vanlíðan hjá viðkomandi manneskju og stuðlað að áþreifanlegri tilfinningu hennar fyrir jaðarsetningu í samfélaginu.
Skilaboð Meinlauss eru sett fram í myndasöguformi á Instagram og Facebook-síðum á norrænum tungumálum á öllum Norðurlöndunum. Um eru að ræða myndræna framsetningu á raunverulegum atvikum úr lífi fólks.
Almenningur er hvattur til að taka þátt í umræðunni með því að deila eigin reynslu undir myllumerkinu #meinlaust eða með því að merkja það @meinlaust.
Vitundarvakningin er sem fyrr segir birt undir formerkjum Norrænu ráðherranefndarinnar og var vinna við hana leidd af fulltrúum Íslands í norrænni embættismannanefnd á sviði kynja- og hinseginjafnréttis.
- Frekari upplýsingar: Harmless? Against Microaggressions