Aukin fjölbreytni á sviði menningar og tungumála í gervigreind með samstarfi Íslands og UNESCO
Logi Einarsson menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra hefur undirritað viljayfirlýsingu um samstarf milli Íslands og UNESCO um að koma á fót alþjóðlegum samstarfsvettvangi sem mun stuðla að fjölbreytni á sviði menningar og tungumála í gervigreind, en Logi er fulltrúi Íslands á leiðtogafundi um gervigreind sem nú fer fram í París. Á leiðtogafundinum koma saman þjóðarleiðtogar og stjórnendur fyrirtækja sem starfa í tæknigeiranum og hefur fundurinn það að markmiði að móta sameiginlega sýn á stefnu og þróun gervigreindartækni á alþjóðavísu.
Almannarómur, miðstöð máltækni, leiðir samstarfið við UNESCO fyrir hönd Íslands. Ráðherra undirritaði viljayfirlýsinguna í höfuðstöðvum UNESCO í París ásamt Gabrielu Ramos, aðstoðarframkvæmdastjóra félags- og hugvísinda hjá UNESCO, og Lilju Dögg Jónsdóttur, framkvæmdastjóra Almannaróms.
Viljayfirlýsingin kveður á um að Ísland og UNESCO vinni saman að stofnun vettvangsins næstu mánuði og að hann verði formlega settur á við alþjóðlega ráðstefnu UNESCO um siðferði í gervigreind í Taílandi í júní. Unnið verður að því næstu mánuði að fá fleiri þjóðir í samstarfið, eiga í samráði við stór tæknifyrirtæki sem þróa gervigreindarlausnir og tryggja verkefninu fjármagn.
„Við getum verið afar stolt af þeirri vinnu sem hefur verið unnin á Íslandi. Við höfum sýnt að með markvissum aðgerðum og framsýni er hægt að takast á við þær áskoranir sem smáþjóðir standa frammi fyrir, sérstaklega þegar kemur að tungumálum. Árangur Íslands heldur áfram að vekja athygli og nú getum við miðlað þessari þekkingu áfram og styrkjum um leið alþjóðlegt samstarf og leggjum okkar af mörkum til þess að gervigreindarlausnir nái til sem flestra. Þessi reynsla getur nýst fleiri þjóðum sem vilja tryggja að eigin tungumál og menning fái rými í stafrænum heimi," segir Logi Einarsson, menningar,- nýsköpunar- og háskólaráðherra.
Íslenska aðferðin vekur athygli
Það máltæknistarf sem unnið hefur verið á Íslandi undanfarin ár, með máltækniáætlunum, hefur vakið töluverða athygli út fyrir landsteinana, ekki síst fyrir tilstilli samstarfs Íslands við OpenAI þar sem gervigreindarmállíkanið ChatGPT var þjálfað sérstaklega á íslensku, fyrst tungumála utan ensku. Þá hafa önnur risamállíkön reynst afar fær í íslensku og má ætla að það magn gagna sem hefur verið safnað á íslensku og gefið út undir opnum leyfum undir máltækniáætlunum hafi þar skipt sköpum.
„Áhugi UNESCO á að nýta okkar þekkingu og reynslu er gríðarleg viðurkenning á því mikla máltæknistarfi sem hefur verið unnið á Íslandi undanfarin ár. Með þessu samstarfi stimplum við okkur inn á alþjóðavettvangi sem leiðandi þjóð í þessum geira og höfum þar að leiðarljósi okkar styrkleika og sérstöðu sem land lýðræðis og jafnréttis," segir Lilja Dögg, framkvæmdastjóri Almannaróms.
Í september 2024 gáfu Almannarómur, menningar- og viðskiptaráðuneytið og íslenska gervigreindar- og máltæknifyrirtækið Miðeind út skýrsluna Íslenska aðferðin: Hvernig stuðla má að fjölbreytni tungumála og menningar á sviði gervigreindar (e. The Icelandic Approach: Preserving and Revitalizing Linguistic and Cultural Diversity in AI) á ráðstefnu OpenAI í New York, sem haldin var í tengslum við Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna. Þar lagði Ísland til að samstarfsvettvangur af því tagi sem Ísland og UNESCO vinna nú að yrði til. Í kjölfar útgáfunnar hafa viðræður staðið yfir milli ráðuneytisins, Almannaróms og UNESCO um hvernig finna megi slíku verkefni farveg.
Samræmd gagnaöflun og framsetning
Markmiðið er að samstarfsvettvangurinn verði vettvangur helstu hagaðila; fleiri þjóðir með tungumál sem standa höllum fæti í heimi tækninnar verða fengnar að borðinu auk þess sem reynt verður að tryggja aðkomu stórra tæknifyrirtækja að vettvangnum. Þar er markmiðið að hagaðilar komi saman og útbúi staðlaðar aðferðir við öflun gagna, framsetningu þeirra og meðferð, fyrir fjölda tungumála. Þá kveður viljayfirlýsingin á um að til verði samnýtt opið gagnasafn fjölbreyttra tungumála.