Hoppa yfir valmynd
11. febrúar 2025 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Saman gegn fordómum - nýtt verkfæri

Mennta- og barnamálaráðuneytið og Miðstöð menntunar og skólaþjónustu kynna til leiks vefinn Saman gegn fordómum sem opnaði formlega fyrr í dag. Hlutverk hans er að fræða og vekja athygli á fordómum og hatursorðræðu í samfélaginu. Vefurinn býður upp á fjölbreytta fræðslu og verkfæri sem ætlað er að stuðla að aukinni vitund og skilningi meðal almennings.

Á vefnum er að finna ítarlegt fræðsluefni um mismunandi tegundir fordóma og hatursorðræðu. Þar eru einnig leiðbeiningar um hvernig einstaklingar geta brugðist við þegar þeir verða vitni að eða verða fyrir slíkri hegðun. Með þessu er stefnt að því að efla færni til að takast á við fordóma í daglegu lífi.

„Hatursorðræða er særandi og veldur sundrungu og skautun í samfélaginu. Saman gegn fordómum fellur að áherslu ríkisstjórnarinnar á jafna stöðu og jöfn réttindi allra, standa með jaðarsettum hópum og uppræta rótgróna fordóma í samfélaginu. Hatursorðræða er mein sem leggjast þarf á eitt til að uppræta og saman getum við það,“ segir Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra.

Talsverð umræða hefur verið um hatursorðræðu og ofbeldi í íslensku samfélagi og á alþjóðavettvangi. Mikilvægt er fyrir börn sem fullorðna að skilja hvernig fordómar geta þróast í hatursorðræðu og jafnvel leitt til ofbeldis. Skólar landsins eru staðir þar sem virðing og skilningur ráða ríkjum. Saman gegn fordómum er vettvangur fyrir alla sem vilja læra, spyrja spurninga og leggja sitt af mörkum til jákvæðari og öruggari samfélagsumræðu.

Á vefnum má finna almenna fræðslu um fordóma, hatursorðræðu, fjölmenningu og fleira en þar má einnig finna fjölda tengla í ýmislegt áreiðanlegt fræðsluefni um þessi mikilvægu málefni.

Eins og annað námsefni Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu er vefurinn opinn öllum og hvetur vonandi fólk til að kynna sér efnið, taka þátt í umræðum og nýta sér þau verkfæri sem í boði eru til að stuðla að jákvæðri og fordómalausri samfélagsumræðu.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta