Hoppa yfir valmynd
12. febrúar 2025 Dómsmálaráðuneytið

Drög að frumvarpi dómsmálaráðherra um farþegaupplýsingar sett í Samráðsgátt

Drög að frumvarpi dómsmálaráðherra um breytingar á lögum sem gera flugfélögum og öðrum farþegaflytjendum kleift að afhenda íslenskum yfirvöldum farþegaupplýsingar hefur verið lagt fram í Samráðsgátt. Um er ræða nauðsynlegt skref í því að styrkja og efla getu lögreglu til greininga slíkra upplýsinga sem er mikilvægur liður í því að koma í veg fyrir og rannsaka alvarleg afbrot, þar á meðal skipulagða brotastarfsemi og mansal.

Um er ræða mögulegar breytingar á lögum um landamæri nr. 136/2022, lögreglulögum nr. 90/1996 og tollalögum nr. 88/2005, að því varðar afhendingu og vinnslu upplýsinga um farþega og áhöfn. 

„Með þessu frumvarpi tökum við mikilvægt skref fyrir löggæsluna í landinu og um leið öryggi fólksins í landinu“ segir Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra. „Við þurfum að hafa góða yfirsýn yfir hverjir eru að koma til landsins og dvelja hérna. Skipulögð brotastarfsemi hefur fest rætur á Íslandi. Þeim veruleika þarf að mæta af festu og skynsemi. Ég er viss um að breið sátt sé um þessar breytingar á Alþingi.“

Fyrirhugað er að gera samning við Evrópusambandið um afhendingu á svokölluðum PNR gögnum, þ.e. farþegabókunargögnum úr flugi til landsins. Markmið samningsins er annars vegar að gera flugfélögum og öðrum flytjendum sem skráðir eru í aðildarríkjum Evrópusambandsins kleift að afhenda íslenskum yfirvöldum farþegaupplýsingar með því að kveða á um tiltekin skilyrði fyrir vinnslu þeirra. Hins vegar er samningnum ætlað að tryggja samstarf íslenskra löggæsluyfirvalda við systurstofnanir innan aðildarríkjanna á sviði greininga á farþegaupplýsingum.

Frumvarp þetta er forsenda þess að unnt verði að fullgilda samninginn og þar með tryggja að íslensk yfirvöld fái afhentar upplýsingar um alla farþega sem koma til landsins.

Frestur til að senda umsögn við drögin er til 21. febrúar nk.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta