Hoppa yfir valmynd
12. febrúar 2025 Utanríkisráðuneytið

Málefni Úkraínu og norðurslóða í brennidepli á fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna

Innrásarstríð Rússlands í Úkraínu, staða mála þar og framtíðarhorfur, voru efst á baugi fjarfundar utanríkisráðherra Norðurlandanna sem fram fór í gær. Norðurlöndin eru einhuga um áframhaldandi stuðning við varnarbaráttu landsins og leggja áherslu á að Evrópuríki og Úkraínu verði tryggð sæti við samningaborðið er kemur að mögulegum friðarumleitunum, sem fyrirhugað er að bandarísk stjórnvöld hafi forgöngu um.

„Ekkert um Úkraínu, án Úkraínu. Þetta hefur verið okkar skýra afstaða og hún stendur enn fyrir sínu,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra. „Það er afar mikilvægt að tryggja úkraínsku þjóðinni, sem hefur nú mátt þola blóðugt og ólöglegt innrásarstríð Rússlands í hartnær þrjú ár, réttlátan og varanlegan frið og huga um leið að framtíðarskipan öryggismála í Evrópu til langframa.“

Frá því að Rússland hóf allsherjarinnrás í Úkraínu fyrir hartnær þremur árum hefur stuðningur Norðurlandanna við Úkraínu verið afgerandi, bæði á sviði varnarmála sem og í formi efnahags- og mannúðarstuðnings.

Ráðherrarnir ræddu einnig öryggi á norðurslóðum og samstarf á vettvangi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) þar sem Finnland fer með formennsku á þessu ári, fimmtíu árum eftir undirritun Helsinki-lokagerðarinnar. Þá undirstrikuðu ráðherrarnir enn og ný mikilvægi norræns samstarfs og einingu þeirra á meðal um mikilvægi alþjóðlegrar samvinnu. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta