Farsælt samstarf Íslands og Póllands í jarðhitanýtingu
Ísland og Pólland hafa átt farsælt samstarf við nýtingu jarðhita um árabil, m.a. undir hatti Uppbyggingarsjóðs EFTA, sem vilji er til að halda áfram. Pólverjar hafa áform um að stórauka nýtingu jarðhita heima fyrir og er pólsk sendinefnd nú í heimsókn á Íslandi til að kynna sér jarðhitamál hér. Þetta kom fram á fundi Jóhanns Páls Jóhannssonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, með Krzysztof Galos, aðstoðarumhverfis- og loftslagsráðherra Póllands, sem fer fyrir pólsku sendinefndinni.
Galos greindi frá áformum Pólverja við nýtingu jarðhita, einkum til húshitunar. Sagði hann nú vera 10 jarðvarmaver í Póllandi og að stefnt væri að byggja 10 í viðbót á næstu 5 árum, en alls séu 40 jarðhitaverkefni á teikniborðinu. Samstarf við Íslendinga sé mikilvægt í þessu sambandi, en pólsk stjórnvöld hafi m.a. átt gott samstarf við Orkustofnun (nú Umhverfis- og orkustofnun) í þeim efnum. Ráðherrarnir voru sammála um að styðja áfram við samstarf ríkjanna á sviði jarðhitanýtingar og hreinorku.
Jóhann Páll greindi sendinefndinni frá áherslum íslenskra stjórnvalda í loftslags-, orku- og umhverfismálum, m.a. áformum um að ná kolefnishlutleysi fyrir 2040, stuðning við hrein orkuskipti og aðrar aðgerðir til að draga úr losun og nýta frekar kosti til að virkja endurnýjanlega orku í sátt við sjónarmið náttúruverndar. Sagði ráðherra Ísland vilja góð samskipti við Pólland og Evrópusambandið í þessum efnum, en Pólland fer með formennsku í ESB á fyrri helmingi þessa árs.
Þá greindi Galos stuttlega frá stefnu Póllands og nokkrum af áherslum pólsku formennskunnar í ESB, sem snúast m.a. um að auka orkuöryggi, setja ný loftslagsmarkmið fyrir 2035 og 2040, minnka losun og auka samkeppnishæfni Evrópu.