Hoppa yfir valmynd
13. febrúar 2025 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Frumvarp um Matsferil og ný samræmd próf lagt fyrir Alþingi

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra, lagði fram frumvarp um nýtt námsmat, Matsferil, fyrir Alþingi í gær. Matsferli er m.a. ætlað að koma í stað gömlu samræmdu prófanna sem voru hætt að þjóna sínum tilgangi. Í þeirra stað verða ný samræmd próf í íslensku og stærðfræði lögð fyrir í öllum grunnskólum skólaárið 2025–2026.

Matsferill er safn matstækja, sem að hluta eru valkvæð og öðrum hluta skylda, sem ætlað er að gefa heildstæða mynd af stöðu og framvindu hvers barns í námi, jafnt og þétt yfir skólagönguna. Auk nýrra samræmdra prófa mun Matsferill innihalda fjölda tækja og tóla fyrir kennara til að nota reglulega í skólastarfi til að fá tíðari og fjölbreyttari mælingar á námsárangri barna. Innleiðing á þessum hluta Matsferils er þegar hafin og heldur áfram á næsta skólaári.

Í vor verða ný samræmd próf í íslensku og stærðfræði lögð fyrir um 7.000 nemendur í 26 skólum víðsvegar um landið og leitað eftir endurgjöf kennara og nemenda um inntak þeirra og framkvæmd. Næsta skólaár standa prófin öllum skólum á landinu til boða í 7 árgöngum (4. til 10. bekk), en notkun þeirra verður skyldubundin í 4., 6., og 9. bekk.

Aðdragandi

Árið 2018 hófst víðtækt samráð og samstarf margra hagsmunaaðila, með það að markmiði að ákveða hvernig samræmdu námsmati væri best fyrirkomið í íslensku skólakerfi. Fram að þeim tíma hafði gætt talsverðrar óánægju með gerð og framkvæmd samræmdu könnunarprófanna, sem höfðu verið í notkun í nánast óbreyttri mynd frá árinu 2008. Starfshópur skipaður fulltrúum kennara, skólastjórenda, foreldra, sveitarfélaga og stjórnvalda mat það svo að samræmd próf í þeirri mynd sem þau voru hentuðu ekki í að veita nemendum, foreldrum, kennurum og fræðsluyfirvöldum leiðbeinandi upplýsingar um stöðu nemenda og skólakerfisins í heild. Niðurstaða samráðsins var að þróa nýtt námsmat, Matsferil.

Ávinningur

Niðurstöður Matsferils auðvelda starfsfólki skóla að mæta hverju barni þar sem það er statt hverju sinni, með kennslu og námsgögnum við hæfi. Með honum munu stefnumótandi aðilar geta fylgst betur með þróun námsárangurs yfir tíma, greint styrkleika og mögulegar áskoranir og lagt til menntaumbætur í kjölfarið.

Matsferli er ætlað að valdefla nemendur og kennara, enda er vandað námsmat ein af grunnforsendum þess að hægt sé að styðja við fjölbreytta kennsluhætti, einstaklingsmiðað nám og leiðsagnarmat með markvissar umbætur að leiðarljósi. Forsjáraðilar munu einnig fá mun betri og nákvæmari upplýsingar um stöðu og framfarir í námi barna sinna en nokkru sinni áður.

Samræmt á landsvísu

Mikilvægt er að undirstrika að þessi nýju stöðu- og framvindupróf í íslensku og stærðfræði sem innleidd verða í alla skóla næsta skólaár eru ný samræmd próf. Með þeim verður hægt að bera niðurstöður hvers nemanda, bekkjar eða skóla saman við niðurstöður fyrir landið í heild. Fyrirlögn verður sveigjanlegri en í tilfelli gömlu samræmdu prófanna þar sem hún mun ekki miðast við ákveðinn dag heldur lengri prófaglugga. Þannig verður auðveldara að laga notkun Matferils að kennsluskipulagi hvers skóla.

Það er ljóst að lengi hefur verið beðið eftir nýju samræmdu námsmati og miklar væntingar standa til þess. Því er mikilvægt að vanda til verka og vera í þéttu samstarfi við skólasamfélagið allt. Mennta- og barnamálaráðuneytið og Miðstöð menntunar og skólaþjónustu vilja þakka nemendum, kennurum og öðru starfsfólki skóla og skólaskrifstofa sérstaklega fyrir þátttökuna í verkefninu, sem hefur verið afar dýrmæt. Við hlökkum til næstu skrefa og áframhaldandi samstarfs.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta