Hoppa yfir valmynd
13. febrúar 2025 Heilbrigðisráðuneytið

Hefur mælt fyrir fimm af 11 þingmálum sínum á Alþingi

Alma D. Möller heilbrigðisráðherra

Alma D. Möller heilbrigðisráðherra mælti á Alþingi í gær fyrir tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun í krabbameinsmálum og aðgerðaáætlun gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmis. Þar með hefur hún mælt fyrir fimm af þeim 11 þingmálum heilbrigðisráðherra sem eru á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar, þegar á fyrstu tveimur dögum þingsins. Hin þingmálin eru frumvarp til breytinga á lögum um heilbrigðisþjónustu, frumvarp til breytinga á lögum um landlækni og lýðheilsu og frumvarp til breytinga á lyfjalögum og lögum um lækningatæki. 

Tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmis

Þingsályktunartillagan felur í sér að fela heilbrigðisráðherra, í samvinnu við atvinnuvegaráðherra og umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, að vinna að framkvæmd aðgerðaáætlunar gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmis.  Áætlunin nær til áranna 2025-2029 og inniheldur sex aðgerðir sem fela í sér 24 markmið og 75 verkefni. Aðgerðunum sem um ræðir er ætlað að stuðla að markvissri og skynsamlegri notkun sýklalyfja hjá mönnum og dýrum. Þungamiðja áætlunarinnar felur í sér verkefni sem miða að því að minnka og bæta notkun sýklalyfja, auka hreinlæti og koma í veg fyrir sýkingar með öðrum ráðum eins og bólusetningum. Nauðsynlegur þáttur í því er að upplýsa og um mikilvægi skynsamlegrar sýklalyfjanotkunar og mikilvægi sóttvarna. 

Tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun í krabbameinsmálum

Í tillögunni felst ályktun Alþingis um að unnið skuli að framkvæmd aðgerðaáætlunar í krabbameinsmálum fyrir árin 2025-2029 og að tekið verði mið af áætluninni við gerð fjárlaga hvers árs og í fjármálaáætlun. Aðgerðaáætlunin nær til áranna 2025-2029 og skiptist í sex kafla sem innihalda 16 aðgerðir. Sameiginleg markmið aðgerðanna lúta að því að árangur hér á landi verði eins og best gerist á hinum Norðurlöndunum. Því markmiði verði m.a. náð með því að leggja áherslu á markvissar forvarnir gegn helstu áhættuþáttum krabbameina, skimun og snemmgreiningu meina, veita heildstæða krabbameinsþjónustu samkvæmt stöðluðum greiningar- og meðferðarferlum, tryggja jöfnuð í aðgengi að krabbameinsþjónustu óháð búsetu, uppruna og samfélagsstöðu og tryggja gæðastýrða krabbameinsþjónustu með notkun gæða- og árangursvísa. 

Frumvarp til breytinga á lögum um landlækni og lýðheilsu

Meginmarkmið frumvarpsins er þríþætt. Í fyrsta lagi að setja ítarleg ákvæði um rekstur og notkun heilbrigðisskráa. Í öðru lagi er stefnt að því að tryggja lagastoð fyrir stofnun og rekstri gæðaskráa. Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar er varða aðgang heilbrigðisyfirvalda að sjúkraskrám við meðferð kvörtunar- eða kærumála og við rannsóknir á atvikum í heilbrigðisþjónustu. 

Frumvarp til breytinga á lyfjalögum og lögum um lækningatæki 

Með frumvarpinu er lagt til að innleiða reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2022/123 frá 25. janúar 2022 um að styrkja hlutverk Lyfjastofnunar Evrópu vegna viðbúnaðar við krísu og krísustjórnun hvað varðar lyf og lækningatæki, í samræmi við skuldbindingar Íslands skv. 7. gr. EES-samningsins.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu 

Með frumvarpinu er lögð til fækkun fastra hæfnisnefnda, þ.e. að leggja niður stöðunefnd lækna, stöðunefnd framkvæmdastjóra hjúkrunar og nefnd til að meta hæfni umsækjenda um störf forstjóra heilbrigðisstofnana. Markmiðið er að aðlaga umgjörð um hæfnisnefndir að því sem almennt gildir hjá ríkinu, sbr. heimild í lögum um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna, nr. 70/1996, fyrir ráðherra til að skipa sérstaka hæfnisnefnd til að meta hæfni umsækjenda um starf forstöðumanns.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta