Hoppa yfir valmynd
13. febrúar 2025 Innviðaráðuneytið, Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið, Forsætisráðuneytið

Ómissandi samfélagsinnviðum tryggðir varafjarskiptasamband við útlönd um gervihnetti

Gervihnattadiskur við Höfn í Hornafirði - myndMynd/iStock

Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögu forsætisráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um að fjármagna varafjarskiptaleið við útlönd um gervihnetti. Tilgangurinn er að tryggja lágmarks netsamband ómissandi samfélagsinnviða við útlönd, fari svo að fjarskiptasamband um alla sæstrengi við Ísland rofni á sama tíma.

Á vettvangi þjóðaröryggisráðs hefur á undanförnum misserum ítrekað verið fjallað um mikilvægi þessa verkefnis til styrkingar á áfallaþoli samfélagsins. Verkefnið styður hvort tveggja við markmið þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland og netöryggisstefnu og fellur vel að fyrirhugaðri þátttöku Íslands í evrópskri áætlun um öryggisfjarskipti um gervihnetti með þátttöku ríkja ESB og EES.

Nýlega fór fram netöryggisæfing undir heitinu „Ísland ótengt“, að undirlagi netöryggissveitarinnar CERT-IS og Almannavarna. Tilgangurinn var að æfa viðbrögð við ýmsum sviðsmyndum við m.a. þær aðstæður ef fjarskiptasamband rofnar við Ísland um alla sæstrengi og Ísland yrði sambandslaust við umheiminn. Um 200 fulltrúar sem starfa hjá stofnunum og mikilvægum innviðafyrirtækjum tóku þátt í æfingunni. Æfingin er hluti af aðgerðaáætlun netöryggisstefnu Íslands.

Við þær aðstæður að fjarskiptasamband Íslands um sæstrengi rofnar mætti nýta fjarskiptasamband um gervihnetti. Bandvídd um gervihnetti yrði töluvert minni en um sæstrengina, en tryggir engu að síður mikilvæga tengingu fyrir brýnar upplýsingar. Á æfingunni „Ísland ótengt“ var því einnig æft hvernig slík varaleið yrði nýtt og hvernig umferð mikilvægustu gagna um takmarkað gervihnattasamband yrði forgangsraðað. Ljóst var af æfingunni að forgangsröðun netumferðar væri nauðsynleg forsenda fyrir virkni varaleiðar um gervihnetti ef á reyndi.

CERT-IS og Almannavarnir hyggjast fylgja viðbúnaðaræfingunni eftir næstu mánuði með raunprófunum. Slíkar prófanir verða raunverulegastar með beinum aðgangi að varaleið um gervihnetti. Þannig megi gera frekari þolprófanir fyrir ólíka aðila sem gegna ómissandi hlutverki í samfélaginu. 

Farice ehf. hefur tekið þátt í þróun og útfærslu varaleiðar fjarskipta um gervihnetti. Undirbúningur gengur samkvæmt áætlun og er miðað við að kerfið verði tilbúið til notkunar fyrir fyrstu notendur í mars nk.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta