Hoppa yfir valmynd
13. febrúar 2025 Utanríkisráðuneytið

Varnarmálaráðherrar Atlantshafsbandalagsins ræddu aukinn varnarbúnað og stuðning við Úkraínu

Varnarmálaráðherrar Atlantshafsbandalagsins. - myndAtlantshafsbandalagið

Varnarmálaráðherrar Atlantshafsbandalagsins ræddu aukinn varnarviðbúnað og fælingarmátt bandalagsins og stuðning bandalagsríkja við Úkraínu á ráðherrafundi sem lauk í Brussel í dag. Á fundinum var farið yfir helstu aðgerðir og áætlanir sem miða að því að styrkja fælingar- og varnargetu bandalagsins, meðal annars aukin framlög til varnarmála, eflingu herstjórnarkerfisins, ítarlegri áætlanagerð og samstarf ríkjanna á sviði hergagnaframleiðslu og tækniþróunar. 

„Það er ljóst að öll bandalagsríki eru að efla sinn varnarviðbúnað og getu. Það þurfum við líka að gera í þéttu samstarfi við okkar nánustu bandamenn. Þá kom það skýrt fram á fundinum að krafan á Evrópuríkin um aukin framlög og fjárfestingar mun aðeins aukast. Á sama tíma er brýnt að styðja við Úkraínu til að styrkja stöðu þeirra og tryggja að Úkraína og Evrópa taki þátt í öllum viðræðum um framtíðarskipan mála til að tryggja varanlegan og réttlátan frið. Eins og ég hef áður sagt, ekkert um Úkraínu án Úkraínu,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra

Ráðherrarnir funduðu í NATO-Úkraínuráðinu þar sem rætt var um vígstöðuna í Úkraínu, þarfir Úkraínu fyrir hergögn og annan varnartengdan stuðning. Rustem Umerov, varnarmálaráðherra Úkraínu gerði grein fyrir stöðu mála og Kaja Kallas utanríkismálastjóri Evrópusambandsins sótti einnig fundinn. Á fundinum var tilkynnt um áframhaldandi stuðning Íslands við varnir Úkraínu en lagðar verða 400 milljónir í sjóð fyrir sprengjuleit og eyðingu, sem Ísland og Litáen leiða, og aðrar 400 milljónir í verkefni sem Danir leiða til stuðnings varnartengdum iðnaði í Úkraínu. 

Í tengslum við varnarmálaráðherrafundinn átti utanríkisráðherra fund með Christopher G. Cavoli, yfirhershöfðingja Atlantshafsbandalagsins (SACEUR) sem jafnframt er yfirmaður herafla Bandaríkjanna í Evrópu. Þau ræddu varnarviðbúnað bandalagsins, framlag Íslands til sameiginlegra varna og þróun mála á Norður-Atlantshafi og norðurslóðum. Í gær fór einnig fram ráðherrafundur ríkjahóps til stuðnings varnarbaráttu Úkraínu (e. Ukraine Defence Contact Group, UDCG) þar sem rætt var um skipulag og framkvæmd stuðnings ríkjanna við Úkraínu meðal annars þjálfunarverkefni, fjárfestingar og útvegun hergagna.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta