Hoppa yfir valmynd
14. febrúar 2025 Innviðaráðuneytið

Breytingar á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga kynntar í samráðsgátt

Drög að frumvarpi til laga um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Markmiðið með breytingum á regluverki Jöfnunarsjóðs er að stuðla að markvissari og réttlátari úthlutun úr sjóðnum, einfalda skipulag sjóðsins og stuðla að því að hann fylgi þróun sveitarfélagagerðarinnar. Frestur til að senda inn umsögn er til og með 28. febrúar nk.

Breytingarnar er liður í því að ná fram markmiðum þingsályktunar um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2024–2038 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028. Markmið og áherslur þingsályktunarinnar eru m.a. að sveitarfélög á Íslandi verði öflugur og sjálfbær vettvangur lýðræðislegrar starfsemi, sjálfstjórn og ábyrgð sveitarfélaga verði virt og að tryggð verði sem jöfnust réttindi og aðgengi íbúa að þjónustu.

Frumvarpið var samið á grundvelli tillagna starfshóps sem ráðherra skipaði árið 2023 til að endurskoða regluverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Markmið starfshópsins að bæta gæði jöfnunar, einfalda útreikninga og skipulag sjóðsins og tryggja að sjóðurinn fylgi þróun sveitarfélagagerðarinnar. Meðal tillagna er að nýtt líkan Jöfnunarsjóðs leysi af hólmi núverandi tekjujöfnunar-, útgjaldajöfnunar- og fasteignaskattsframlög. Um er að ræða gagnsætt líkan sem sameinar ofangreind framlög í eitt framlag. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta