Hækkun veiðigjalds hreindýra
Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku og loftslagsráðherra, hækkaði í vikunni gjald fyrir veiðar á hreindýrum fyrir veiðitímabilið í ár.
Stofnstærð hreindýra hefur minnkað á undanförnum árum og mikil óvissa er um af hverju þessu fækkun stafar en engin merki eru um verra ástand dýra, alvarlegan nýliðunarbrest eða stóraukin afföll utan veiða. Þetta hefur leitt til þess að frá árinu 2019 hefur veiðikvóti lækkað um 100 til 200 dýr á ári. Árið 2019 var veiðikvótinn 1451 dýr, en veiðikvóti fyrir árið 2025 verður 665 dýr.
Veiðigjald er greitt fyrir hvern tarf og hverja kú, og á gjaldið, og þar af leiðandi veiðikvótinn, að standa undir því fyrirkomulagi sem er um hreindýraveiðar skv. reglugerð þar um.
Gjaldið fer í eftirlit og stjórn hreindýraveiða, vöktun á hreindýrum til að ákveða veiðiþol og til greiðslu hæfilegs arðs til landeigenda vegna ágangs hreindýra og veiðimanna.
Í ljósi þess að veiðikvótinn er minni í ár lá fyrir að gjaldið af hreindýraveiðum myndi ekki standa undir stjórn veiðanna.
Ráðherra ákvað því að hækka veiðigjaldið til að það stæði undir því fyrirkomulagi sem er um stjórn hreindýraveiða og til að tryggja að kostnaður við það félli á ekki á almenning.
Í ljósi upplýsinga um fækkun hreindýrastofnsins og annmarka varðandi fjármögnun sem að framan er lýst, auk annarra atriða sem hagaðilar og fagstofnanir hafa bent á að þurfi að skoða, s.s. mörk veiðisvæða og markmið stofnstýringar, hefur ráðherra ákveðið að setja af stað sérstaka vinnu við gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir hreindýr. Þar verða hagaðilar og fagstofnanir kallaðar til og unnið að úrbótum á þeim atriðum sem hér hefur verið tæpt á. Stefnt er að því að hefja þá vinnu með vorinu.
Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Veiðigjald á hreindýr verður að standa undir kostnaði við eftirlit og stjórn veiðanna. Við ákvörðun kom ekki til greina að fyrirkomulag hreindýraveiða yrði fjármagnað af almannafé. Slík meðferð á skattfé gengi í berhögg við stefnu nýrrar ríkisstjórnar í auðlindamálum og ríkisfjármálum. Þess vegna hækka ég gjaldið. Framundan er mikilvæg vinna við gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir hreindýr.”