Hoppa yfir valmynd
14. febrúar 2025 Forsætisráðuneytið

Öryggismál í Evrópu í brennidepli í München

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra og António Costa, forseti leiðtogaráðs ESB. - mynd

Vaxandi spenna í alþjóðamálum, öryggismál í Evrópu, stríðið í Úkraínu og horfur í alþjóðahagkerfinu eru á meðal þeirra mála sem rædd verða á hinni árlegu Öryggismálaráðstefnu í München sem sett var í dag og stendur fram á sunnudag. Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra tekur þátt í ráðstefnunni og átti í dag fjölda tvíhliða funda með öðrum evrópskum leiðtogum þar sem þau alþjóðamál sem hæst ber um þessar mundir voru rædd. 

Á fundi sínum með António Costa, forseta Leiðtogaráðs Evrópusambandsins, ræddi forsætisráðherra um hagsmunagæslu Íslands á vettvangi EES og viðbúnað ESB og EES-EFTA ríkjanna varðandi tollamál í kjölfar boðaðra stefnubreytinga Bandaríkjastjórnar sem kunna að valda talsverðum áskorunum. Þá átti forsætisráðherra fund með Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, þar sem stríðið í Úkraínu og horfur í öryggis- og varnarmálum Evrópu voru á meðal dagskrárliða. 

„Öryggismál í Evrópu og alþjóðasamskipti almennt eru á fleygiferð um þessar mundir og sjónir eru í auknum mæli að beinast að norðanverðri álfunni. Það er afar mikilvægt að eiga efnisrík samtöl við aðra þjóðaleiðtoga, efla samstöðuna meðal bandamanna okkar og sinna þannig hagsmunagæslu fyrir Ísland, hvort sem er í öryggis- og varnarmálum eða alþjóðaviðskiptum,” segir Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra.

„Á Öryggismálaráðstefnunni í München eru samankomnir leiðtogar og ráðherrar hvarvetna úr Evrópu, Norður-Ameríku, Asíu og víðar og hér gefst einstakt tækifæri til að tala fyrir helstu markmiðum utanríkisstefnu Íslands við áhrifafólk. Við Norðurlöndin fimm og Eystrasaltsríkin þrjú erum samstíga í málflutningi okkar hvað stríðið í Úkraínu varðar. Við notum þessa helgi til að ráða frekar ráðum okkar í ljósi þeirra sviptinga sem eru uppi varðandi stöðu Úkraínu og hlutverk Evrópuríkja í eftirleik átakanna sem við öll vonum að endi sem fyrst og að það gerist með réttlátum og langvarandi hætti þar sem hagsmunir Úkraínu verða ekki fyrir borð bornir,” segir forsætisráðherra. 

Í dag á forsætisráðherra einnig fundi með Aksel Johannessen, lögmanni Færeyja, og Alain Berset, framkvæmdastjóra Evrópuráðsins, ásamt því að taka þátt í málstofum þar sem m.a. Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, og J.D. Vance, varaforseti Bandaríkjanna, verða með framsögur. Þá munu leiðtogar Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna (sem kallast NB8-ríkjahópurinn) funda um stöðu mála í Úkraínu. Á morgun laugardag mun forsætisráðherra m.a. eiga fundi með Olaf Scholz, kanslara Þýskalands, og Mohammad Mustafa, forsætisráðherra Palestínu.

Þorgerður K. Gunnarsdóttir utanríkisráðherra tekur einnig þátt í Öryggismálaráðstefnunni í München. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta