Sækir ráðherrafund OECD á sviði félagsmála
Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, situr í dag ráðherrafund OECD á sviði félagsmála. Fundinn sækja félagsmálaráðherrar OECD-ríkjanna. Yfirskrift fundarins hefur sterka tengingu við áherslumál félags- og húsnæðismálaráðherra og nýrrar ríkisstjórnar: New Frontier for Social Policy: Investing in the Future.
„Ég mun á fundinum leggja ríka áherslu á baráttuna gegn fátækt, ekki síst baráttuna gegn því að börn alist upp við fátækt,“ segir Inga Sæland.
Fundurinn er vettvangur fyrir ráðherra til að koma saman og skiptast á hugmyndum, hugsjónum og nálgunum varðandi félagsleg mál, nú þegar lýðfræðilegar breytingar, loftslagsbreytingar, tækniþróun, stríð, pólitískar vendingar og margvísleg atriði hafa bein áhrif á félagsleg kerfi í ríkjum vítt og breitt um heiminn. Þá eru ótalin þau áhrif sem heimsfaraldurinn hafði.
Viðlíka ráðherrafundir á vegum OECD (Efnahags- og framfarstofnunarinnar) eru haldnir á 5-7 ára fresti. Fundur félagsmálaráðherra var síðast haldinn árið 2018.
Í forsæti fundarins nú sem fram fer í París verða þær Maria do Rosário Palma Ramalho, ráðherra vinnumála, samstöðu og félagsmála í Portúgal, og Elma Saiz Delgado, ráðherra félags- og innflytjendamála á Spáni. Unnur Orradóttir Ramette, sendiherra Íslands í París, fylgir Ingu Sæland á fundinn ásamt fleiri fundargestum.
Í gær fundaði ráðherra einnig með sérfræðingum OECD til að ræða ýmis úrræði í aðildarríkjunum fyrir félagslegt húsnæði.
Ráðherrarnir samankomnir.