Degi íslenska táknmálsins fagnað og tákn ársins 2024 tilkynnt
Í tilefni dags íslenska táknmálsins 11. febrúar síðastliðinn var haldin hátíðleg athöfn í Salnum, Kópavogi þar sem Sigrún Brynja Einarsdóttir ráðuneytisstjóri afhenti, fyrir hönd menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, viðurkenningu til RÚV fyrir stuðning sinn í þágu íslensks táknmáls. Stefán Eiríksson útvarpsstjóri tók á móti viðurkenningunni. Var athöfnin lokaviðburður fjölbreyttrar dagskrár þar sem meðal annars var boðið upp á uppistand á íslensku táknmáli og táknmálstúlkaðri leiðsögn listafólks í Gerðubergi.
Í mars 2024 var þingsályktun um málstefnu íslensks táknmáls 2024–2027 og aðgerðaáætlun samþykkt á Alþingi. Þetta er fyrsta málstefna um íslenskt táknmál (ÍTM) sem hefur verið gerð auk aðgerðaáætlunar og hefur að markmiði að draga úr útrýmingarhættu málsins, varðveita tungumálið til framtíðar, fjölga umdæmum íslensks táknmáls og stuðla að bættu málumhverfi táknmálsfólks og táknmálsbarna. Kjarni málstefnunnar er jákvætt viðhorf til málsins sem forsenda jafnra tækifæra og þátttöku málhafa í íslensku þjóðlífi.
Nýir þættir og tákn ársins
Samkvæmt lögum ber RÚV að stuðla að lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni í íslensku samfélagi með fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Í umsögn frá málhöfum kemur fram að RÚV hafi fyrir um 40 árum verið í hópi þeirra fyrstu á Norðurlöndum að bjóða upp á 10 mínútna fréttir þar sem málhafar sögðu helstu fréttir á íslensku táknmáli. Nú er allur fréttatími táknmálstúlkaður ásamt fleira fréttatengdu efni. Aðgengi að efni túlkuðu á íslenskt táknmál jókst verulega í kórónuveirufaraldrinum og nú er meira efni aðgengilegt í sarpi RÚV eftir sýningu. Þar má finna fjölbreytt efni, til dæmis stjórnmálaefni og kosningasjónvarp, tilkynningar frá almannavörnum og fleira. Krakkafréttir eru einnig í boði með táknmálstúlkun og er því jákvætt að sjá að hugað sé að táknmálsbörnum við gerð innlends barnaefnis.
Gestum athafnarinnar voru sýnd myndbrot úr nýjum sjónvarpsþáttumþáttum „Þetta er íslenskt táknmál“ sem munu líta dagsins ljós á næstu misserum og myndband frá þátttakendum í Táknmálseyju, sem er málörvunarverkefni fyrir táknmálsbörn á grunnskólaaldri á vegum Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra. Að lokum var tilkynnt um tákn ársins 2024 sem er „kosning“.
Menningar- og viðskiptaráðuneyti óskar táknmálsfólki til hamingju með dag íslenska táknmálsins 2025.