Stafrænt Ísland tilnefnt til alþjóðlegra verðlauna
Stafrænt Ísland er tilnefnt í tveimur flokkum alþjóðlegu verðlaunanna Future of Government Awards. Verðlaunin eru veitt árlega til stjórnvalda, tækniteyma og einstaklinga sem vinna að því að bæta opinbera þjónustu við almenning með þróun og innleiðingu stafrænna lausna.
Stafrænt Ísland hefur undanfarin ár verið tilnefnt og hlotið fjölda viðurkenninga bæði hérlendis og erlendis fyrir fjölbreytt samstarfsverkefni á sviði stafrænnar þróunar. Sem stendur er Ísland í 5. sæti á heimslista aðildaríkja Sameinuðu þjóðanna á sviði stafrænnar þjónustu og innviða (eGDI).
Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra:
„Stafvæðing er lykilþáttur í hagræðingu og einföldun stjórnsýslunnar – og því að bæta og þróa áfram fjölbreytta þjónustu við almenning í landinu. Meginhlutverk Stafræns Íslands er að styðja opinbera aðila í því brýna verkefni. Samvinnan hefur þegar skilað okkur eftirtektarverðum árangri þó sóknarfærin fram undan séu mörg, það er ánægjulegt að fá viðurkenningu alþjóðasamfélagsins á því sem vel er gert.“
Future of Government verðlaunin eru veitt í fimm flokkum og fær Stafrænt Ísland sínar fyrstu tilnefningar í tveimur; sem stafrænt teymi ársins (e. Digital Team of the Year) þar sem horft er til minni teyma sem haft hafa umfangsmikil áhrif í stafrænni umbreytingu síðustu tvö ár, og fyrir þróun opins hugbúnaðar (e. Open Source Creation Award) þar sem viðmiðið er opinn hugbúnaður sem hefur sannað gildi sitt og möguleika þess að stjórnvöld í öðrum ríkjum geti endurnýtt hann.
Flestar þjóðir heims keppast nú við að bæta opinbera þjónustu með hjálp stafrænna lausna og hraða með þeim ýmsum ferlum, hagræða í rekstri og auka jákvæð umhverfisáhrif. Tæknilausnir gera opinberum aðilum enda kleift að gera meira fyrir minna, og mæta betur þörfum borgaranna sem þeir þjóna.
Future of Government verðlaunin beina kastljósinu að teymum og leiðtogum sem skarað hafa fram úr á þessum sviðum. Valnefndir verðlaunanna eru skipaðar alþjóðlegum sérfræðingum og ljóst af tilnefningarlistunum að samkeppnin er hörð.
Bakhjarlar verðlaunanna eru Þróunaráætlun Sameinuðu þjóðanna (UNDP), ráðgjafafyrirtækið Public Digital og AWS. Verðlaunin voru fyrst veitt árið 2022.