Hoppa yfir valmynd
18. febrúar 2025 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Innviðaráðuneytið, Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

40 verkefni fengu styrki til rannsókna og nýsköpunar á sviði mannvirkjagerðar

Styrkþegar ásamt ráðherrum við athöfnina í dag. - myndSigurjón Ragnarsson

Fjörutíu nýsköpunar- og/eða rannsóknarverkefni fengu í dag styrkúthlutun úr Aski – mannvirkjarannsóknasjóði. Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, og Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, afhentu styrkina við hátíðlega athöfn í húsakynnum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS).

Um er að ræða úthlutun ársins 2024. Þetta er fjórða úthlutun sjóðsins sem stofnaður var árið 2021 og hefur það hlutverk að veita styrki til nýsköpunar- og mannvirkjarannsókna með áherslu á aukna þekkingu, umbætur og nýsköpun til að mæta samfélagslegum áskorunum á sviði mannvirkjagerðar.

Sjóðurinn er fjármagnaður af tveimur ráðuneytum en umsýsla hans er í höndum HMS. Alls bárust 70 umsóknir í Ask í ár og var sérstakt fagráð skipað til að meta umsóknirnar. Verkefnin sem fengu styrk snúa meðal annars að rannsóknum á vistvænum byggingarefnum, orkunýtingu mannvirkja og gæðum í mannvirkjagerð. Alls var úthlutað 182 milljónum króna.

Áhersla á nýsköpun og vistvæna mannvirkjagerð

Sjóðurinn veitir styrki í fimm áhersluflokkum sem snúa einkum að samfélagslegum áskorunum í byggingariðnaði, svo sem rakaskemmdum í mannvirkjum og aðgerðum til lækkunar kolefnisspors. Við hverja úthlutun er horft til þarfa, eðlis og áskorana á sviði mannvirkjagerðar, áherslu á nýsköpun og markmiða um sjálfbærni.

Áætlað er að mannvirkjaiðnaður beri ábyrgð á allt að 40% af kolefnisspori á heimsvísu og því ljóst að þar liggja tækifæri til úrbóta, enda eiga flest verkefnin það sammerkt að hafa umhverfislegan ávinning.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta