Einkasala ríkisins á áfengi er mikilvægur og árangursríkur hluti af áfengisstefnu Norðurlandaþjóðanna samkvæmt nýrri skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Norðurlöndin, að Danmörku frátalinni, eru öll með ríkiseinkasölu áfengis. Samkvæmt skýrslunni er heildarneysla áfengis mun minni hjá þessum þjóðum en í öðrum Evrópulöndum þar sem verslunin er frjáls. Niðurstaða skýrslunnar er sú að afnám einkasölu myndi að öllum líkindum leiða til aukinnar áfengisneyslu, heilsutjóns og félagslegra vandamála.
Markmið skýrslunnar var að greina hvaða hlutverki einkarekin áfengissala á Norðurlöndunum gegnir í áfengisstefnu ríkjanna og hver áhrifin eru á lýðheilsu. Gerður er samanburður við aðrar þjóðir Evrópu þar sem áfengissala er frjáls og hvort munur sé á áfengisneyslu og áfengistengdum vandamálum eftir því hvort áfengissala er frjáls eða á hendi ríkisins.
Minni áfengisneysla hjá Norðurlandaþjóðunum
Áfengisneysla Norðurlandaþjóðanna þar sem áfengissalan er ríkisrekin er að meðaltali mun minni en hjá Evrópuþjóðum þar sem hún er frjáls, eða 7-8 lítrar á hvern íbúa (15 ára og eldri) hjá Norðurlandaþjóðunum á móti 11 lítrum hjá samanburðarþjóðunum. Danmörk er með frjálsa áfengisverlsun og er neyslan þar svipuð og hjá samanburðarþjóðunum.
Einkasala ríkisins - óhagnaðardrifin og skýrar reglur
Skýrsluhöfundar benda á að ríkisreknu einkasölurnar starfi undir stjórn hins opinbera og séu ekki reknar í hagnaðarskyni. Ólíkt frjálsum markaði byggist þær ekki á hagnaði, enginn hvati sé til að auka sölu áfengis í gegnum markaðssetningu, afslætti eða útsölur, opnunartími sé takmarkaður og aldursmörk á sölu áfengis ströng. Þá sýni rannsóknir að eftirfylgni með aldri kaupenda hjá ríkisreknu einkasölunum sé mun betri en hjá áfengissölum á einkamarkaði. Þannig sé einkasala ríkisins á áfengi mikilvægt tól stjórnvalda til þess að draga úr skaðsemi áfengisneyslu og lykilþáttur í áfengisstefnu Norðurlandaþjóðanna. Þetta, ásamt háum áfengisgjöldum, sé jafnframt í samræmi við gagnreyndar ráðleggingar WHO um leiðir til að sporna við áfengisneyslu og skaðanum sem af henni hlýst.