Styrkir félagasamtök um tæpar 90 m.kr. til verkefna á sviði heilbrigðisþjónustu
Alma D. Möller heilbrigðisráðherra hefur veitt 88,2 milljónir króna í styrki til félagasamtaka sem vinna að mikilvægum verkefnum á sviði heilbrigðismála í þágu tiltekinna hópa. Alls voru veittir styrkir til 34 verkefna og námu styrkfjárhæðir á bilinu 400.000 til 6.000.000 kr.
Styrkir sem þessir eru veittir árlega af safnliðum fjárlaga, til verkefna á vegum frjálsra félagasamtaka sem miða að því að veita einstaklingum eða hópum stuðning, fræðslu og ráðgjöf. Áskilið er að þau falli að opinberri stefnu á sviði heilbrigðis- og lýðheilsumála. Mörg verkefnanna lúta að því að útbúa fræðsluefni og standa fyrir fræðslustarfsemi, standa vörð um hagsmuni félagsmanna eða bjóða félagsmönnum upp á ýmis konar stuðning og ráðgjöf.
Fjölbreytt og mikilvæg verkefni fyrir samfélagið
Verkefnin sem hlutu styrk eru fjölbreytt að vanda. Sem dæmi má nefna verkefni um vitundarvakningu og valdeflingu eldra fólks varðandi notkun á svefn- og róandi lyfjum á vegum Landssambands eldri borgara, - verkefni Sjálfsbjargar um sálfræðiþjónustu við fólk með hreyfihömlun af völdum slysa eða áfalla, - fræðsluátak í grunn- og framhaldsskólum um endómetríósu á vegum Endósamtakanna, - verkefni um skaðaminnkandi þjónustu fyrir fólk sem reykir ópíóíða og örvandi vímuefni á vegum Matthildar og verkefni Alzheimersamtakanna á Íslandi um stuðning við einstaklinga með heilabilun og aðstandendur þeirra.
„Hlutverk frjálsra félagasamtaka í íslensku samfélagi er stórt. Þau gegna fjölmörgum þýðingarmiklum verkefnum fyrir einstaka hópa og fyrir samfélagið í heild og þar fer einnig fram mikilvægt frumkvöðlastarf. Því skiptir miklu máli að stjórnvöld styðji við starfsemi þeirra, líkt og með styrkveitingum eins og hér um ræðir“ segir Alma D. Möller heilbrigðisráðherra.