Hanna Katrín heimsækir Matvælastofnun
Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra heimsótti nýverið höfuðstöðvar Matvælastofnunar (MAST) á Selfossi.
Hrönn Ólína Jörundsdóttir forstjóri stofnunarinnar fræddi ráðherra um víðfeðma starfsemi MAST sem er með tíu starfsstöðvar á landsbyggðinni auk höfuðstöðva og útibús í Reykjavík.
Þau málefni MAST sem hafa verið í brennidepli voru einnig rædd. Að ósk ráðherra er matvælaráðuneytið í viðræðum við dómsmálaráðuneytið um að kanna möguleika þess að Neyðarlínan taki við tilkynningum almennings í gegnum 112 um slæman aðbúnað eða vonda meðferð dýra. Þar með verði til staðar einföld og skilvirk leið ef þarf að koma tilkynningu um dýr í hættu.
Einnig ræddu forstjóri og ráðherra þær almennu áskoranir sem framundan eru í málefnum dýraverndar og lagareldis.
„Mikilvægi MAST hefur farið vaxandi“ sagði Hanna Katrín. “Stofnunin sinnir eftirliti með framleiðslu og útflutningi matmæla og hefur yfirumsjón með matvælaeftirliti á vegum sveitarfélaga auk þess að sinna heilbrigði og velferð dýra á landsvísu og eftirliti með störfum dýralækna. Velferð dýra skipar sífellt stærri sess í umræðunni og þær kröfur sem gerðar eru til MAST hafa aukist í samræmi við það. Við leggjum því áherslu á að stofnunin hafi nauðsynleg úrræði til að takast á við síbreytilegt og krefjandi hlutverk.“