Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2025 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Lagt til að fæðingarorlof verði lengt fyrir foreldra með fjölbura og vegna veikinda á meðgöngu

Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra - mynd

Frumvarp hefur verið birt í samráðsgátt stjórnvalda þar sem lagt er til að fæðingarorlof verði lengt fyrir foreldra með fjölbura og vegna veikinda á meðgöngu. Frumvarpið er hluti af þeim 11 þingmálum sem Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, ætlar að leggja fram á vorþingi.

Lagabreytingarnar eru hluti af stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Í dag eiga foreldrar sameiginlegan rétt á lengingu fæðingarorlofs í þrjá mánuði fyrir hvert barn umfram eitt en lagt er til að það breytist í sex mánuði. Það sama á við um greiðslu svokallaðs fæðingarstyrks. Þannig er lagt til að tímabilið tvöfaldist þar sem foreldrar eiga sameiginlegan rétt á fleiri mánuðum vegna fjölbura.

Einnig er lagt til að foreldrar sem frumættleiða eða taka í varanlegt fóstur fleiri börn en eitt á sama tíma muni eiga sameiginlegan rétt á lengingu fæðingarorlofs eða greiðslu fæðingarstyrks í sex mánuði fyrir hvert barn umfram eitt.

Tekið utan um fólk í krefjandi aðstæðum

Í frumvarpsdrögunum er sömuleiðis lagt til að heimilt verði að lengja fæðingarorlof um allt að tvo mánuði ef upp hafa komið alvarleg veikindi á meðgöngu sem haldið hafa áfram eftir fæðingu og gert foreldri ófært að annast barn sitt í fæðingarorlofinu. Þetta eru nýmæli.

„Með báðum þessum breytingum viljum við að taka utan um fólk í aðstæðum sem geta verið afar krefjandi,“ segir Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra.

„Þetta eru umbætur sem geta skipt afskaplega miklu máli fyrir þau börn og fjölskyldur sem um ræðir. Þær sýna að við í ríkisstjórninni meinum það þegar við segjum að við ætlum að láta verkin tala, stoppa í götin og bæta hag fólks.“

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta