Áform um stöðugleikareglu í samráðsgátt
Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur lagt í samráðsgátt áform um frumvarp til laga um breytingu á lögum um opinber fjármál. Breytingarnar snúa einkum að fjármálareglum laganna sem ætlað er að styrkja umgjörð opinberra fjármála með því að stuðla að stöðugleika og lágu, sjálfbæru skuldahlutfalli.
Áformin fela í sér að tekin verði upp ný, svonefnd stöðugleikaregla, eins og kveðið er á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Slík regla miðar að því að hamla gegn því að ríkisfjármálin ýti undir efnahagslegt ójafnvægi, hvort sem er þenslu eða samdrátt. Hún setur skorður á vöxt útgjalda ríkisins.
Gert er ráð fyrir að stöðugleikaregla verði útfærð þannig að undirliggjandi útgjöld A1-hluta ríkissjóðs megi vaxa um að hámarki 2,0% að raunvirði á ári. Raunvöxt útgjalda umfram 2,0% þurfi að fjármagna með samsvarandi ráðstöfunum til tekjuöflunar. Tekið skal fram að um er að ræða reglu um hámark útgjaldavaxtar. Efnahagsaðstæður og staða ríkisfjármála kunna að vera með þeim hætti að tilefni geti verið talið til þess að stjórnvöld setji sér þrengri skorður um útgjaldaþróun í því ljósi.
Að undanförnu hefur fjármála- og efnahagsráðuneytið unnið að endurskoðun á tölusettu fjármálareglum laganna og samspili þeirra í ljósi reynslunnar sem fengist hefur af þeim frá því þær voru festar í lög fyrir nærri tíu árum, þegar lög um opinber fjármál tóku gildi. Í framhaldi af þeirri greiningu, sem m.a. hefur verið kynnt með sérstakri umræðuskýrslu á Alþingi, er áformað að leggja fram frumvarp til breytingar á fjármálareglum laga um opinber fjármál að loknu umsagnarferli.
Vegna áformaðra breytinga á fjármálareglunum er nauðsynlegt að gera til samræmis breytingar á viðfangsefni fjármálaráðs, sem ætlað að tryggja að fram fari hlutlægt mat á stefnumörkun í opinberum fjármálum. Áformað er að bætt verði ákvæði í lögin um að hlutverk ráðsins verði einnig að rýna forsendur fyrir vaxtarhámarki útgjaldareglunnar, beitingu hennar sem og forsendur og áhrif tekjuráðstafana sem snúa að svigrúmi til útgjaldavaxtar. Auk þessara breytinga er áformað að fjármálaráð taki að sér nýjan starfsþátt sem feli í sér að vakta og greina þróun framleiðni í hagkerfinu. Tilefnið fyrir því er að tryggja framgang áforma sem hafa verið til umræðu milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins með hagkvæmum hætti samhliða því að breikka og styrkja starfsemi ráðsins.
Mörg ríki hafa tekið upp fjármálareglur
Fjölmörg ríki og myntbandalög hafa tekið upp fjármálareglur. Val á reglum og umgjörð þeirra ræðst gjarnan af áskorunum hvers tíma og í hverju landi. Fjármálareglur geta verið ýmist tölulegar eða ekki. Grunngildi laga um opinber fjármál, sem kveða á um að fjármálastefna hins opinbera skuli vera sjálfbær, varfærin, stuðla að stöðugleika og einkennast af festu og gagnsæi, eru dæmi um fjármálareglur sem eru ekki tölulegar. Þótt grunngildin skilgreini ekki töluleg skilyrði bera þau engu að síður með sér fremur skýra forskrift fyrir mati á því hvort stefnumörkun stjórnvalda miði í rétta átt. Reglur sem setja afkomu, útgjöldum eða skuldsetningu hins opinbera töluleg skilyrði eru dæmi um tölulegar fjármálareglur. Segja má að tölulegu reglurnar tiltaki lágmarkskröfur sem gerðar eru til þess hvernig opinber fjármál þróast. Góðar tölulegar fjármálareglur ættu að styðja við grunngildi laganna.
- Málið í samráðsgátt. Umsagnarfrestur er til og með 27. febrúar