Hoppa yfir valmynd
20. febrúar 2025 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Drög að frumvarpi til breytinga á fjölmiðlalögum í samráðsgátt

Drög að frumvarpi til breytinga á fjölmiðlalögum í samráðsgátt  - myndMynd: Stjórnarráðið

Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra hefur lagt fram drög að frumvarpi til breytinga á fjölmiðlalögum sem finna má í samráðsgátt. Frumvarpið er liður í heildarendurskoðun á stuðningi við fjölmiðla.

Lagt er til  að stuðningur til einkarekinna fjölmiðla verði framlengdur til eins árs. Ein breyting er gerð frá fyrri lögum þar sem hlutfall stuðnings til hvers umsækjanda getur samkvæmt frumvarpinu ekki orðið hærri en sem nemur 22% af fjárveitingu til verkefnisins en áður var miðað við 25%. Vinna við endurskoðun ákvæða kaflans er þegar hafin og mun frumvarp sem festir í sessi stuðning til einkarekinna fjölmiðla verða lagt fram á haustþingi. Af þeim sökum er gildistími kaflans einungis eitt ár. Var það metið sem svo að vinna við endurskoðun væri ekki komin á það stig að unnt væri að leggja fram frumvarp með endurskoðuðum ákvæðum á vorþingi, en til þess að tryggja stuðning við fjölmiðla á árinu 2025 þykir nauðsynlegt að taka upp ákvæði um stuðning til einkarekinna fjölmiðla sem gilda meðan verið er að ljúka vinnu við endurskoðun stuðningsins. Áætlað er að til úthlutunar á árinu verði sambærileg upphæð og hefur verið.

„Framlenging á styrkjum um eitt ár og lækkun þaks um 3% stig eru liður í að koma á jafnari dreifingu stuðningsins milli fjölmiðla og færa fyrirkomulagið nær þeirri þróun sem er að eiga sér stað á Norðurlöndunum. Þetta er hluti af heildarendurskoðun á því hvernig við getum stutt sem best við heilbrigt og blómlegt fjölmiðlaumhverfi sem skilar okkur sem þjóð, upplýstu og faglegu fjölmiðlaumhverfi til framtíðar. Tækifærin í þeirri vinnu eru mörg og verður kapp lagt á að stuðla að stöðugleika,“ segir Logi Már Einarsson menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra.

Sjá nánar hér

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta