Fullur salur á samráðsþingi um landsáætlun í málefnum fatlaðs fólks
Fjöldi fólks tók þátt í opnu samráðsþingi um landsáætlun um innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem fram fór í dag. Landsáætlunin inniheldur 60 aðgerðir og er liður í innleiðingu og lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Hún var samþykkt á Alþingi árið 2024.
Þetta var þriðja samráðsþingið sem blásið er til í tengslum við landsáætlunina og yfirskrift þingsins nú var „Eitt lífshlaup – ótal tengingar“. Markmiðið var að kortleggja þjónustu við fatlað fólk í gegnum ævina og hvernig hægt væri að koma á og styrkja tengingar á milli aðila. Þátttakendur á þinginu voru ríflega 150, meðal annars fulltrúar fatlaðs fólks, hagsmunasamtaka fatlaðs fólks, starfsfólk ríkis og sveitarfélaga, fólk úr háskólasamfélaginu og frá ýmsum fagaðilum. Hópavinna fór fram á borðum og verða niðurstöðurnar grunnur að hluta þeirra aðgerða í landsáætlun sem eiga að hefjast á þessu ári.
Á þinginu var einnig farið yfir stöðu þeirra aðgerða sem hófust í fyrra en þær eru 22 talsins. Þá ávarpaði Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, samkomuna og kynnti vitundarvakningu um stöðu, framlag og réttindi fatlaðs fólks sem hefst á morgun.
Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, flutti ávarp á þinginu.
Unnið á borðum við að kortleggja þjónustu við fatlað fólk í gegnum ævina.
Farið yfir stöðu aðgerða í landsáætluninni.
Hóparnir tóku fyrir mismunandi aldursskeið með það að markmiði að kortleggja þjónustu við fatlað fólk í frá vöggu til grafar.
Málin krufin til mergjar.
Niðurstöður hópanna munu nýtast vel við vinnu við ákveðnar aðgerðir í landsáætluninni.