Ísland undirritaði yfirlýsingu um gervigreind
Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, var fulltrúi Íslands á leiðtogafundi um gervigreind í París sem fór fram í liðinni viku. Með honum í för voru fulltrúar ráðuneytisins og Almannaróms, miðstöð máltækni. Þá tóku fulltrúar íslensku fyrirtækjanna Datalab og Miðeind þátt í dagskrá ráðstefnunnar.
Á fundinum komu saman 1.500 þjóðarleiðtogar, ráðherrar, fræðimenn og fulltrúar tæknifyrirtækja sem starfa á sviði gervigreindar en markmið fundarins var að móta sameiginlega sýn á stefnu og þróun gervigreindar á alþjóðavísu. Alls skrifuðu yfir 70 ríki og stofnanir undir yfirlýsingu fundarins, þ.m.t. Ísland. Yfirlýsingu fundarins má nálgast hér.
Auk gestgjafans Emmanuel Macron, forseta Frakklands, sóttu fundinn leiðtogar á borð við forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Ursula von der Leyen, aðalritara Sameinuðu þjóðanna, Antonio Guterres, varaforseta Bandaríkjanna, J.D. Vance, og forseta Indlands, Narendra Modi, en Indverjar voru meðgestgjafar ráðstefnunnar.
Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra fundaði einnig með fulltrúum breska fyrirtækisins Fluidstack sem hefur átt í samstarfi við gagnversfyrirtækið Borealis Data Center um uppbyggingu skýjaþjónustu fyrir franska stórfyrirtækið Mistral AI á Blönduósi. Mikil tækifæri eru fólgin í uppbyggingu gagnaversinnviða en hröð þróun gervigreindar hefur m.a. í för með sér aukna eftirspurn eftir þjónustu sjálfbærra gagnaverslausna.
Þá undirritaði ráðherra, ásamt Lilju Dögg Jónsdóttir, framkvæmdastjóra Almannaróms, yfirlýsingu um samstarf milli Íslands og UNESCO um að koma á fót alþjóðlegum samstarfsvettvangi sem mun stuðla að fjölbreytni á sviði menningar og tungumála í gervigreind. Gabriela Ramos, aðstoðarframkvæmdastjóri félags- og hugvísindasviðs undirritaði fyrir hönd UNESCO. Nánar hér.
Ráðherra sótti einnig ráðstefnu um alþjóðlegt samstarf á sviði gervigreindar hjá Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD) og pallborð á vegum franskra stjórnvalda um jafnrétti og gervigreind. Auk tvíhliða funda með ráðherrum Noregs og Danmerkur á sviði gervigreindar, átti hann fundi með íslenskum starfsmönnum alþjóðlegra fyrirtækja og Íslendingum sem hafa áralanga reynslu af kynningu á íslenskri menningu erlendis.