Tryggjum úrræði fyrir börn
Ráðherranefnd um málefni barna fundaði í gær um alvarlega stöðu mála vegna neyðarvistunar og úrræða fyrir börn með fjölþættan vanda. Nefndin er einhuga um að leita lausna sem fyrst á þeim bráðavanda sem uppi er og að hefja skuli vinnu við að tryggja úrræði fyrir börn með fjölþættan vanda.
Formaður nefndarinnar er Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, en í henni sitja Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra, Alma Möller heilbrigðisráðherra og Eyjólfur Ármannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Um árabil hefur mennta- og barnamálaráðuneytið unnið að stefnumótun og tillögum varðandi málefni barna með flókinn og fjölþættan vanda, í breiðu samráði við hlutaðeigandi aðila. Skýrslu um þá vinnu má sjá á vef ráðuneytisins.