Breytingar á námslánum í samráðsgátt
Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, hefur birt drög að lagafrumvarpi um breytingar á Menntasjóði námsmanna. Breytingarnar fela m.a. í sér að námsstyrkur yrði greiddur út í lok hverrar annar en ekki aðeins við námslok eins og þekkist í dag, endurgreiðslur af lánunum hæfust 18 mánuðum eftir námslok í stað 12, fyrirsjáanleiki afborgana yrði aukinn og áréttað að vaxtabyrði námslána myndi hvíla á ríkissjóði fram að námslokum. Frumvarpsdrögin eru aðgengileg í Samráðsgátt stjórnvalda og er umsagnarfrestur til 7. mars.
Heildarendurskoðun á lögum um Menntasjóð námsmanna hefur staðið yfir í ráðuneytinu í kjölfar birtingar skýrslu um stöðu Menntasjóðsins í lok árs 2023. Þegar hafa verið gerðar breytingar á sjóðnum með lagabreytingum sumarið 2024 þegar ábyrgðarmannakerfi námslána var fellt úr gildi að fullu og skilyrði fyrir námsstyrk voru rýmkuð. Frumvarpsdrögin sem nú hafa verið birt í samráðsgátt eru framhald af þeirri vinnu og voru unnin í samráði við fulltrúa námsmanna, stjórn og starfsmenn Menntasjóðsins auk fulltrúa BHM, Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins.
Í þessari vinnu hafa frekari vankantar á gildandi lögum komið í ljós auk ábendinga um framkvæmd laganna, sem æskilegt væri að breyta. Frumvarpinu er ætlað að mæta því, að því marki sem hægt er miðað við þann skamma tíma sem liðinn er frá því að ný ríkisstjórn tók við völdum og vegna stöðu ríkisfjármála, sem ekki er hægt að horfa fram hjá. Vinnu við heildarendurskoðunina er þó ekki lokið og eru frekari breytingar á Menntasjóði námsmanna fyrirhugaðar.
„Menntasjóður námsmanna á að vera félagslegur jöfnunarsjóður þannig að fólk hafi tækifæri á að helga sig í auknum mæli námi á námstímanum. Með frumvarpinu stígum við markviss skref í þá átt en það verður forgangsatriði hjá mér næstu mánuði að vinna frekari breytingar og halda áfram heildarendurskoðun. Vonir mínar standi til þess að geta lokið endurskoðuninni næsta þingvetur,“ segir Logi.
Meðal breytinga sem lagðar eru til í frumvarpsdrögunum eru eftirfarandi:
- Styrkjakerfi námslána er breytt þannig að í stað 30% niðurfellingar á námsláni í lok náms geta þeir sem uppfylla kröfur um námsframvindu fengið 20% niðurfellingu við lok hverrar námsannar og 10% við námslok.
- Vaxtaviðmiðum námslána er breytt á þann veg að byggt er á þriggja ára meðaltali vaxta í stað eins mánaðar. Þetta þýðir að áhrif stýrivaxtaákvarðana Seðlabanka Íslands á vaxtabyrði námslána minnka frá því sem verið hefur.
- Viðmiðin í lið 2 munu jafnframt standa þeim sem þegar hafa tekið H-lán til boða.
- Þá er að finna heimild fyrir lánþega, sem skulda H-lán eftir stofnun Menntasjóðs og önnur eldri lán í tíð LÍN, til að greiða fyrst H-lán og fresta greiðslu eldri lána þar til H-lánið hefur verið greitt upp.
Sem fyrr segir má nálgast frumvarpsdrögin í Samráðsgátt stjórnvalda og er umsagnarfrestur til 7. mars.