Föstudagspóstur 21. febrúar 2025
Heil og sæl.
Við hefjum yfirferð vikunnar á færslu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur utanríkisráðherra þar sem hún fór skilmerkilega yfir þá ólgu og vendingar sem uppi hafa verið í alþjóðakerfinu að undanförnu.
Í ljósi þeirrar stöðu óskaði ráðherra eftir að fá að flytja Alþingi skýrslu um öryggis- og varnarmál. Fór sú umræða fram í vikunni og brýndi ráðherra fyrir þingheimi að nú reyni á samstöðu. Við þyrftum að gera meira og leggja okkar af mörkum; standa með Úkraínu og standa með Evrópu. Gera hvað sem við getum til að stuðla að friði.
Þá heimsótti ráðherra varnarsvæðið í Keflavík í vikunni. Þar hitti hún fyrir liðsmenn finnska lofthersins sem sinnt hafa loftrýmisgæslu á Íslandi undanfarið á grundvelli samstarfs innan Atlantshafsbandalagsins.
Thank you Finland, for guarding our skies and flying the NATO flag in the Arctic. Had the pleasure of meeting with the capable personnel of the Finnish Air Force yesterday! pic.twitter.com/8ws2HUr4RG
— Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (@thorgkatrin) February 20, 2025
Sameiginleg tækifæri, viðskipti og náið og traust vinasamband Íslands og Færeyja var til umræðu á hádegisverðarfundi Þorgerðar Katrínar og Høgna Hoydal, utanríkisráðherra Færeyja, sem fram fór í húsakynnum utanríkisráðuneytisins við Austurhöfn í vikunni.
Takk fyrir góðan fund, Høgni! Great discussion on 🇮🇸 and 🇫🇴 deep and strong ties, based on shared history and mutual interests. We also talked about the steadily increasing trade between our two nations and regional security & defence during these times of global uncertainty. https://t.co/Zt5mUIVCY4
— Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (@thorgkatrin) February 20, 2025
Að auki hitti Þorgerður Katrín sendiherra Indlands í húsakynnum utanríkisráðuneytisins á dögunum.
Þá deildi ráðherra sameiginlegri grein 20 ríkja sem birt var í tilefni þess að ár var liðið frá dauða Alexei Navalní, stjórnarandstæðingi Kremlarvaldsins í Moskvu.
Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra í Tókýó, sótti sýningu á heimildarmyndinni 20 dagar í Mariupol sem sýnd var hjá sendinefnd Evrópusambandsins í Japan í samstarfi við Úkraínu og Pólland.One year ago, @navalny gave his life fighting for freedom and democracy in Russia. As Putin’s repression increasingly becomes more systematic, widespread and brutal, Navalny’s fight lives on, inspiring all who stand against oppression. https://t.co/3dftJm63zk
— Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (@thorgkatrin) February 16, 2025
Europe & Japan continue to show solidarity with Ukraine. Attended a screening of "20 Days in Mariupol," by 🇺🇦 journalist Chernov, organized by the EU Mission & the Emb. of 🇺🇦&🇵🇱 - a powerful look into the Russian aggression, highlighting the resilience of the Ukrainian people. pic.twitter.com/1ushO5yice
— Stefan H Johannesson (@stefanhaukurj) February 21, 2025
Sendiráðið í Tókýó stóð fyrir móttöku, í samstarfi við sendiráð Svíþjóðar, fyrir hinsegin diplómata og tengiliði sem vinna að málefnum hinsegin fólks. Ragnar Þorvarðarson, varamaður sendiherra, sagði frá réttindabaráttu hinsegin fólks á Íslandi og áherslum Íslands í mannréttindaráðinu.
Auðunn Atlason, sendiherra í Berlín, og Ágúst Már Ágústsson, varamaður sendiherra, voru forsætisráðherra og utanríkisráðherra til halds og trausts á öryggisráðstefnunni í Munchen í síðustu viku. Fjallað var um ráðstefnuna í síðasta föstudagspósti. Óhætt er að segja að ráðstefnan og umræðan í kringum hana hafi vakið athygli en ráðherrarnir tóku þátt í hinum ýmsu viðburðum og áttu fundi með kollegum sínum.
Hin fjölhæfa Elín Hall vann til verðlauna í flokknum „European Shooting Star“ á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni Berlinale sem fram fór í Berlín á dögunum. Sendiráðið óskaði Elínu að sjálfsögðu til hamingju með þessa flottu og verðskulduðu viðurkenningu.
Samhliða Berlinale voru norrænu kvikmyndartónlistarverðlaunin afhent í norrænu sendiráðunum. Eðvarð Egilsson, sem hlaut verðlaunin í fyrra, afhenti verðlaunin í ár. Tónlistarmaðurinn Högni Egilsson var tilnefndur fyrir Íslands hönd að þessu sinni.
Rithöfundurinn Elísabet Jökulsdóttir tók þátt í menningarviðburði í Helsinki á dögunum og hitti þar meðal annars Harald Aspelund sendiherra.
Sendiráðið í Helsinki skipulagði viðburð um tímabundnu listaverkasýningarnar sem haldnar eru í sendiráðsbústaðnum. Harald flutti opnunarerindi og kynningu og Ásthildur Jónsdóttir eiginkona hans stýrði umræðum sem fram fóru í stappfullum sal.
Hlynur Guðjónsson, sendiherra í Ottawa, fór á dögunum í kaffiboð hjá Jeannette Menzies, fyrrverandi sendiherra Kanada á Íslandi, en þar höfðu viðstaddir fylgst með gönguskíðakeppninni Gatineau sem fram fór í 47. sinn.
Sendiherrar Norðurlandanna og annarra ríkja tóku þátt í viðburði sænsku formennskunnar í Norðurlandaráði sem stendur yfir á þessu ári. Andreas Norlén, forseti sænska þingsins, var meðal viðstaddra sem og Bryndís Kjartansdóttir, sendiherra Íslands í Stokkhólmi.
Þá sótti Bryndís fund sem Lettland stóð fyrir um fjölþjóðasveit Atlantshafsbandalagsins í Lettlandi.
Fleira var það ekki þessa vikuna — góða helgi!
Kveðja,
Upplýsingadeild.