Hoppa yfir valmynd
21. febrúar 2025 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 21. febrúar 2025

Heil og sæl.

Við hefjum yfirferð vikunnar á færslu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur utanríkisráðherra þar sem hún fór skilmerkilega yfir þá ólgu og vendingar sem uppi hafa verið í alþjóðakerfinu að undanförnu.

  

Í ljósi þeirrar stöðu óskaði ráðherra eftir að fá að flytja Alþingi skýrslu um öryggis- og varnarmál. Fór sú umræða fram í vikunni og brýndi ráðherra fyrir þingheimi að nú reyni á samstöðu. Við þyrftum að gera meira og leggja okkar af mörkum; standa með Úkraínu og standa með Evrópu. Gera hvað sem við getum til að stuðla að friði.

 

Þá heimsótti ráðherra varnarsvæðið í Keflavík í vikunni. Þar hitti hún fyrir liðsmenn finnska lofthersins sem sinnt hafa loftrýmisgæslu á Íslandi undanfarið á grundvelli samstarfs innan Atlantshafsbandalagsins.

Sameiginleg tækifæri, viðskipti og náið og traust vinasamband Íslands og Færeyja var til umræðu á hádegisverðarfundi Þorgerðar Katrínar og Høgna Hoydal, utanríkisráðherra Færeyja, sem fram fór í húsakynnum utanríkisráðuneytisins við Austurhöfn í vikunni.

 

Að auki hitti Þorgerður Katrín sendiherra Indlands í húsakynnum utanríkisráðuneytisins á dögunum.

  

Þá deildi ráðherra sameiginlegri grein 20 ríkja sem birt var í tilefni þess að ár var liðið frá dauða Alexei Navalní, stjórnarandstæðingi Kremlarvaldsins í Moskvu.

Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra í Tókýó, sótti sýningu á heimildarmyndinni 20 dagar í Mariupol sem sýnd var hjá sendinefnd Evrópusambandsins í Japan í samstarfi við Úkraínu og Pólland.

Sendiráðið í Tókýó stóð fyrir móttöku, í samstarfi við sendiráð Svíþjóðar, fyrir hinsegin diplómata og tengiliði sem vinna að málefnum hinsegin fólks. Ragnar Þorvarðarson, varamaður sendiherra, sagði frá réttindabaráttu hinsegin fólks á Íslandi og áherslum Íslands í mannréttindaráðinu.

  

Auðunn Atlason, sendiherra í Berlín, og Ágúst Már Ágústsson, varamaður sendiherra, voru forsætisráðherra og utanríkisráðherra til halds og trausts á öryggisráðstefnunni í Munchen í síðustu viku. Fjallað var um ráðstefnuna í síðasta föstudagspósti. Óhætt er að segja að ráðstefnan og umræðan í kringum hana hafi vakið athygli en ráðherrarnir tóku þátt í hinum ýmsu viðburðum og áttu fundi með kollegum sínum.

  

Hin fjölhæfa Elín Hall vann til verðlauna í flokknum „European Shooting Star“ á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni Berlinale sem fram fór í Berlín á dögunum. Sendiráðið óskaði Elínu að sjálfsögðu til hamingju með þessa flottu og verðskulduðu viðurkenningu.

Samhliða Berlinale voru norrænu kvikmyndartónlistarverðlaunin afhent í norrænu sendiráðunum. Eðvarð Egilsson, sem hlaut verðlaunin í fyrra, afhenti verðlaunin í ár. Tónlistarmaðurinn Högni Egilsson var tilnefndur fyrir Íslands hönd að þessu sinni.

Rithöfundurinn Elísabet Jökulsdóttir tók þátt í menningarviðburði í Helsinki á dögunum og hitti þar meðal annars Harald Aspelund sendiherra.

  

Sendiráðið í Helsinki skipulagði viðburð um tímabundnu listaverkasýningarnar sem haldnar eru í sendiráðsbústaðnum. Harald flutti opnunarerindi og kynningu og Ásthildur Jónsdóttir eiginkona hans stýrði umræðum sem fram fóru í stappfullum sal.

  

Hlynur Guðjónsson, sendiherra í Ottawa, fór á dögunum í kaffiboð hjá Jeannette Menzies, fyrrverandi sendiherra Kanada á Íslandi, en þar höfðu viðstaddir fylgst með gönguskíðakeppninni Gatineau sem fram fór í 47. sinn.

  

Sendiherrar Norðurlandanna og annarra ríkja tóku þátt í viðburði sænsku formennskunnar í Norðurlandaráði sem stendur yfir á þessu ári. Andreas Norlén, forseti sænska þingsins, var meðal viðstaddra sem og Bryndís Kjartansdóttir, sendiherra Íslands í Stokkhólmi.

  

Þá sótti Bryndís fund sem Lettland stóð fyrir um fjölþjóðasveit Atlantshafsbandalagsins í Lettlandi.

  

Fleira var það ekki þessa vikuna — góða helgi!

Kveðja,

Upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta