Hoppa yfir valmynd
21. febrúar 2025 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Frumvarp vegna umsagnarskyldu Minjastofnunar í samráðsgátt

Götumynd með húsum frá ólíkum tímum. Aðalstræti og Hafnarstræti á Skutulsfjarðareyri.  - mynd

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur birt í Samráðsgátt stjórnvalda drög  að frumvarpi um breytingu  á lögum um menningarminjar, nr. 80/2012.

Með frumvarpinu er lögð til breyting á 30. gr. laga um menningarminjar þannig að í stað umsagnarskyldu Minjastofnunar Íslands um hús og mannvirki verði um að ræða heimild stofnunarinnar til að veita álit um hús og mannvirki óháð aldri þeirra.

Samkvæmt lögunum eru hús og mannvirki sem byggð voru árið 1923 eða fyrr friðuð á grundvelli aldurs. Hvað varðar verndun annarra húsa og mannvirkja sem ekki njóta friðunar og eru byggð á árabilinu 1924 til 1940, hefur Minjastofnun umsagnarskyldu samkvæmt  lögunum, ef til stendur að breyta þeim, flytja eða rífa.

Mikill fjöldi húsa og mannvirkja fellur undir umsagnarskyldu í dag, eða vel á níunda þúsund, og eru þau um tvöfalt fleiri en aldursfriðuð og friðlýst hús. Sum þessara húsa eru álitin varðveisluverð og teljast hluti af byggingararfi þjóðarinnar.

Umsagnarskyldan, sem var aukin með lagabreytingu árið 2022, hefur haft þau áhrif að álag á stjórnsýslu minjamála hefur aukist töluvert og hefur umsagnarskyldan jafnframt reynst íþyngjandi fyrir sveitarfélög og húseigendur. Með frumvarpinu er stefnt að því að  Minjastofnun geti, í staðinn fyrir afgreiðslu umsagna nú, fremur beint sínum kröftum og frumkvæði að vernd aldursfriðaðra og friðlýstra húsa og mannvirkja og markvissari vernd yngri byggingararfs með hátt varðveislugildi.

Tækifæri til að senda inn umsögn eða ábendingar í Samráðsgátt stjórnvalda er til og með 4. mars næstkomandi.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um menningarminjar (Umsagnarskylda húsa og mannvirkja)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta