Hoppa yfir valmynd
26. febrúar 2025 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Leitin að peningunum: Ráðherra fékk fyrsta eintakið afhent

Ásta Sigrún Helgadóttir, umboðsmaður skuldara, og Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, með nýju bókina en hana er hægt að nálgast endurgjaldslaust á netinu. - mynd

Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur fengið afhent fyrsta eintakið af bókinni Leitin að peningunum – leiðarvísir að fjárhagslegu sjálfstæði sem umboðsmaður skuldara gefur út. Höfundar bókarinnar eru Kolbeinn Marteinsson og Gunnar Dofri Ólafsson og myndskreyting er í höndum Ránar Flygenring.

Umboðsmaður skuldara hefur frá árinu 2020 staðið fyrir fræðsluverkefninu Leitin að peningunum og er bókin skrifuð í framhaldi af því. Hún er hugsuð fyrir allt fólk sem vill tileinka sér betri hegðun þegar kemur að peningum og um leið taka fyrsta skrefið í átt að fjárhagslegu sjálfstæði. Bókinni er í senn ætlað að vera hagnýt og hvetjandi fyrir lesendur og er skrifuð jafnt fyrir fermingarbörn sem forstjóra.

Í bókinni eru 23 stuttir kaflar þar sem teknir eru fyrir ýmsir þættir fjármála og sjónum beint að hlutum sem fólk veltir ekki endilega fyrir sér þegar það hugsar um fjármál. Má þar nefna viðhorf fólks til peninga, hvaða venjur það hefur tamið sér og hvernig allt þetta hefur áhrif á það hvernig einstaklingar takast á við áskoranir í sínum persónulegu fjármálum.

Dæmi um efnistök bókarinnar:

•     Tilfinningar og peningar, fjárhagslegir ósiðir

•     Neyslulán og góð ráð við uppgreiðslu skulda

•     Mikilvægi sparnaðar og fjárfestinga

•     Innkaup til heimilisins og neyslusálfræði

•     Lífeyrismál og sparnaður til framtíðar

„Peningar eru alltumlykjandi í okkar daglega lífi. Fjölmargt fólk þarf að leita að peningum í hverjum mánuði og jafn vel á hverjum degi og ég vona því að bókin nái sem víðast,“ segir Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra.

„Það er ósk höfunda og okkar hjá umboðsmanni skuldara að sem flestir hafi tækifæri til að nýta sér efni bókarinnar til góðra verka í eigin fjármálum. Upplýst umræða og aukin þekking styrkir okkur öll, eykur víðsýni og leggur grunn að nýjum tækifærum,“ segir Ásta Sigrún Helgadóttir, umboðsmaður skuldara.

Leitað að peningum með hlaðvarpsþáttum

Verkefninu Leitinni að peningunum var á sínum tíma ýtt úr vör í kjölfar ábendinga umboðsmanns skuldara um vaxandi vanda ungs fólks sem leitað hafði sér aðstoðar vegna skuldsetningar með skyndilánum. Verkefnið var unnið með styrk frá ráðuneytinu og hefur síðan þá vaxið og dafnað.

Undir merkjum þess hefur verið framleitt mikið af fræðsluefni. Má þar nefna hlaðvarpsþætti sem orðnir eru 69 talsins og snerta á flestum hliðum fjármála einstaklinga. Þáttastjórnandi er Gunnar Dofri Ólafsson.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta