Hoppa yfir valmynd
26. febrúar 2025 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Rekstraraðilum gert auðveldar um vik að standa skil á upplýsingum um losun efna og sérklefar á sund og baðstöðum ​

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur staðfest breytingu reglugerðar um útstreymisbókhald, nr. 990/2008 og breytingu á reglugerð um  hollustuhætti á sund- og baðstöðum, nr. 814/2010.

Reglugerðarbreytingunni um útstreymisbókhald er ætlað að samræma upplýsingar og gera rekstraraðilum auðveldar um vik að standa skil á upplýsingum um losun efna og öðrum umhverfisupplýsingum til stjórnvalda. Samkvæmt reglugerðinni skal öllum skýrslum skilað beint til Umhverfis- og orkustofnunar, í stað útgefanda starfsleyfis áður og fallið er frá kröfu um endurskoðun skýrslna. Umhverfis- og orkustofnun getur þó krafist endurskila teljist gögn ófullnægjandi. Breytingarnar eiga að leiða til þess að betri og ítarlegri upplýsingar fáist frá þeim rekstraraðilum sem ber að skila umhverfisupplýsingum, en um er að ræða upplýsingar sem Umhverfis- og orkustofnun þarfnast til að sinna lögbundnum skyldum sínum, svo sem gagnvart Eftirlitsstofnun EFTA og Loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna.

Reglugerðarbreytingin er liður í framkvæmd aðgerðar G.3 í aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum frá 2020 og á að virka sem hvati til umskipta. 

Reglugerð um (1.) breytingu á reglugerð nr. 990/2008 um útstreymisbókhald

Reglugerðarbreyting um  hollustuhætti á sund- og baðstöðum, sem einnig hefur verið samþykkt, er liður í framkvæmd Aðgerðaáætlunar í málefnum hinsegin fólks, sem samþykkt var á Alþingi í júní 2022, og miðar að því að tryggja að tekið sé tillit til trans fólks og fólks með hlutlausa kynskráningu í ákvæðum sem snúa að aðgengi að salernum og annarri aðstöðu, s.s. búningsaðstöðu.

Í nýjum húsakynnum og við meiriháttar breytingar á húsnæði sund- og baðstaða er lagt til að komið verði upp kynhlutlausri búningsaðstöðu með a.m.k. einni sturtu og salerni. Benda má á að slík aðstaða er þegar á flestum opinberum sundstöðum á höfuðborgarsvæðinu og víða um land.

Reglugerð um (6.) breytingu á reglugerð nr. 814/2010, um hollustuhætti á sund- og baðstöðum

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta