Hoppa yfir valmynd
26. febrúar 2025 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Stefna um farsæld barna til 2035 til umsagnar

Mennta- og barnamálaráðherra hefur kynnt til umsagnar í Samráðsgátt stjórnvalda drög að stefnu um farsæld barna til ársins 2035. Um er að ræða fyrstu heildarstefnu íslenskra stjórnvalda um málefni barna.

Samkvæmt drögunum grundvallast framtíðarsýn stefnunnar á því markmiði að skapa barnvænt samfélag þar sem réttindi og farsæld barna eru í öndvegi. Stefnan hvílir á sex stoðum:

  • Jafnræði allra barna og fjölskyldna þeirra
  • Barnvæn nálgun og þátttaka barna
  • Stuðningur í þágu barna og fjölskyldna þeirra
  • Fræðsla, forvarnir og fyrirbyggjandi aðgerðir í þágu barna
  • Framúrskarandi mannauður í þágu barna
  • Áreiðanleg og heildstæð gögn liggi til grundvallar ákvarðanatöku stjórnvalda

Lagt er til að innleiðing stefnunnar verði viðvarandi verkefni stjórnvalda í víðtæku samráði við börn og samfélagið allt. Á grundvelli hennar verði síðan undirbúnar framkvæmdaáætlanir um verkefni ríkisins sem varða farsæld barna með mælanlegum markmiðum og aðgerðum.

Stefnan er sett fram með þeim hætti að unnt er að byggja á henni við alla stefnumótun sem tengist málefnum barna með einhverjum hætti, hvort sem að sú stefnumótun lýtur að tilteknum málaflokkum og málefnum eða réttindum barna með víðtækari hætti.

„Ég bind vonir við að heildstæð stefna um farsæld barna og fjölskyldna þeirra muni styðja okkur í þeirri vegferð að bæta og samþætta þjónustu og að innan allra kerfa og í allri þjónustu við börn komi aldrei upp sú staða að mál falli á milli skips og bryggju,“ segir Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra.

Mennta- og barnamálaráðuneytið hvetur haghafa og aðra áhugasama um málefni barna að veita umsögn. Umsagnarfrestur er til og með 12. mars.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta