Hoppa yfir valmynd
27. febrúar 2025 Utanríkisráðuneytið

Brýnt að efla eigin getu og varnarsamvinnu

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra. - mynd

Mikilvægi þess að Ísland efli enn frekar samstarf sitt við bandalagsríki og styrki eigin getu til að tryggja stöðuvitund, öryggi, varnir og áfallaþol voru leiðarstef opnunarávarps Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur utanríkisráðherra á málþingi um öryggismál á viðsjárverðum tímum sem haldið var í Norræna húsinu í gær. Að málþinginu stóð Varðberg - samtök um vestræna samvinnu og alþjóðamál í samstarfi við utanríkisráðuneytið.

„Það dylst engum að við stöndum á krossgötum, hvað varðar öryggismál Evrópu og þá um leið í okkar eigin öryggis- og varnarmálum,“ sagði Þorgerður Katrín. „Grunnstoðirnar í vörnum landsins eru að mínu mati óbreyttar, en krefjast aukinnar virkni og ræktarsemi. Þar skipta aðildin að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningurinn við Bandaríkin mestu máli. Landfræðileg lega Íslands fyrir öryggi- og varnir Norður-Ameríku og Evrópu vegur hér þungt. Það þýðir þó ekki að við getum alfarið treyst á aðra. Það er ekki valkostur. Við viljum hafa áhrif á okkar stöðu með virkri þátttöku og samstarfi.“

Í ávarpi sínu áréttaði utanríkisráðherra mikilvægi áframhaldandi stuðnings við varnarbaráttu Úkraínu og samstöðu vestrænna ríkja. Ísland yrði áfram málsvari alþjóðalaga, mannréttinda og lýðræðis.

Þá tók Þorgerður Katrín þátt í pallborðsumræðum ásamt tveimur fyrrverandi utanríkisráðherrum, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, þar sem breytt öryggislandslag og þörfin á uppbyggingu innviða, þekkingar og getu á sviði öryggis- og varnarmála á Íslandi var til umræðu.

Málþinginu var streymt og upptöku má finna á vef Varðbergs.

  • Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra, ásamt Freyju Steingrímsdóttur framkvæmdastjóra Blaðamannafélags Íslands. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta