Hoppa yfir valmynd
27. febrúar 2025 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Málefni barna og ungmenna áherslumál á fundi samstarfsráðherra Norðurlanda

Samstarfsráðherrar Norðurlanda á fundi í Laupmannahöfn í febrúar 2025. - mynd

Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda, tók þátt í fundi samstarfsráðherra Norðurlanda sem fram fór í Kaupmannahöfn 26. febrúar 2025. Samstarfsráðherrar Norðurlanda fara með samræmingu norræna ríkisstjórnarsamstarfsins hjá Norrænu ráðherranefndinni í umboði forsætisráðherra landanna. 

Á fundinum voru meðal annars rædd málefni barna og ungmenna. Samstarfsráðherrarnir ítrekuðu mikilvægi málaflokksins og ákváðu að málefninu yrði áfram forgangsraðað á næstu árum. Starfsemi tengd börnum og ungmennum er umfangsmikil í málaflokkum Norrænu ráðherranefndarinnar, svo sem á sviði menntamála og rannsókna, menningarmála, félags- og heilbrigðismála, dómsmálasamstarfs, vinnumarkaðs og umhverfis og jafnrétti og hinsegin málefna. 

Á fundinum var einnig tekin ákvörðun um fjárhagsramma Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir árið 2026. Þá var rætt um nýja áætlun fyrir frjálsa för á Norðurlöndum 2025-2030 sem tók gildi í ársbyrjun 2025 sem miðar að samþættum Norðurlönd án stjórnsýsluhindrana. Meginmarkmið er að það sé sem einfaldast að flytja, vinna, stunda nám eða reka fyrirtæki þvert á landamæri Norðurlanda án þess að stjórnsýsluhindranir eða önnur vandamál tengd frjálsri för standi í vegi fyrir því.

Í tengslum við fundinn átti samstarfsráðherra einnig tvíhliða fundi um framkvæmd norræns samstarfs, svo sem með framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar, samstarfsráðherrum formennskulandanna, Finnlands og Álandseyja, o.fl. 

„Það var afar ánægjulegt að finna þann samhug sem ríkir um mikilvægi norræns samstarfs. Þau málefni sem nefndin leggur áherslu á eru okkur öllum mikilvæg og fara vel saman við þær áherslur sem núverandi ríkisstjórn hefur sett fram. Við samstarfsráðherrarnir ræddum auk þess um stöðu mála á alþjóðavettvangi og það er traustvekjandi að finna hversu samstillt Norðurlöndin eru gagnvart þeim áskorunum sem við mætum þar,“ segir Logi Einarsson, samstarfsráðherra Norðurlanda.

Finnland og Álandseyjar gegna formennsku í Norrænu ráðherranefndinni á árinu 2025 undir yfirskriftinni Norðurlönd 2025: Sameinuð og sterk. Þar er lögð áhersla á velferð barna og ungmenna, aukið almennt öryggi og aukna samkeppnishæfni, auk þess að uppfylla markmið framtíðarsýnar okkar 2030 um að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims á árunum fram til 2030. Þá er áhersla á stefnumarkandi áherslusviðin þrjú um græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær Norðurlönd. Einnig á að taka tillit til hinna þverlægu sjónarmiða um sjálfbæra þróun, jafnrétti og börn og ungmenni og að þau sjónarmið séu rauður þráður í allri starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar. Einnig er norrænt notagildi haft að leiðarljósi að samstarfið fari fram á sviðum þar sem hagsmunir þjóðanna fara saman og hagkvæmara er að sameina kraftana og takast í sameiningu á við úrlausnarefnin.

Í upphafi árs tóku gildi fjórtán samstarfsáætlanir ráðherranefnda á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir samtals 12 ráðherranefndir sem munu gilda fyrir árin 2025-2030, þar sem tilgreind eru markmið og undirmarkmið starfsins á næstu árum eftir málaflokkum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta