María Heimisdóttir skipuð landlæknir
Jóhann Páll Jóhannsson, settur heilbrigðisráðherra, hefur skipað Maríu Heimisdóttur í embætti landlæknis til næstu fimm ára. Lögskipuð hæfnisnefnd sem metur hæfni umsækjenda um stöður forstjóra heilbrigðisstofnana mat Maríu mjög vel hæfa til að gegna embættinu miðað við fyrirliggjandi kröfur þar að lútandi.
María lauk embættisprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 1990, MBA námi frá University of Connecticut 1997 og doktorsprófi í lýðheilsu frá University of Massachusetts árið 2002. María starfaði hjá Íslenskri erfðagreiningu frá árinu 1999 til 2003 og á Landspítala árin 2003 til 2018, meðal annars sem yfirlæknir hagdeildar og framkvæmdastjóri fjármála, auk þess sem hún leiddi þróun rafrænnar sjúkraskrár um árabil. María var forstjóri Sjúkratrygginga Íslands frá 2018 til 2022 og árin 2023-2024 starfaði hún sem ráðgjafi stýrihóps Nýs Landspítala ohf. fyrir heilbrigðisráðuneytið. Frá því í ágúst á liðnu ári hefur hún verið yfirlæknir á upplýsingamiðstöð Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Hún hefur enn fremur sinnt kennslu og rannsóknum samhliða öðrum störfum og er varamaður í háskólaráði HÍ.
Það er mat hæfnisnefndar að víðtæk háskólamenntun Maríu á fleiri en einu sviði nýtist mjög vel í starfi, auk sérfræðimenntunar í læknisfræði en sérgrein hennar er lýðheilsufræði. Þá sé hún reynslumikill og farsæll stjórnandi með langvarandi reynslu á sviði rekstrar og fjármála. Í umsögn nefndarinnar segir m.a. að að María hafi afburða leiðtogahæfni, farsæla reynslu af stjórnun og rekstri.
Heilbrigðisráðuneytið býður Maríu velkomna til starfa í embætti landlæknis.